Í mörg horn að líta á næstu vikum
Halldór Torfi Torfason, brautarstjóri byggingadeildar VMA, segir að uppihaldið í skólastarfinu vegna kennaraverkfallsins hafi komið sér hvað verst fyrir brautskráningarnemana ellefu í byggingadeildinni því fyrir vikið verði sem þessu nemur skemmri tími fyrir þá að ljúka lokaverkefnum sínum. Ljóst sé að þeir þurfi að halda vel á spilunum, en allt muni þetta þó hafast.
Í vor munu útskrifast ellefu nemendur úr byggingadeild, þar af sjö í trésmíði og fjórir í húsgagnasmíði. Nokkrir af trésmíðanemunum hafa nú þegar lokið samningstímanum hjá meistara og því ætla þeir strax í júní í sveinspróf. Þeirra bíður því annasamur tími að loknu páskaleyfi, annars vegar að ljúka lokaverkefnum í náminu í VMA og síðan í framhaldinu að undirbúa sig fyrir sveinsprófið, en sjálft prófið tekur tvo og hálfan dag.
Þeir fjórir sem ljúka húsgagnasmíðinni í vor eru ekki komnir á samning í sínu fagi, en einn þeirra, Rhonjie Catalau, segist vonast til þess að komast á samning áður en langt um líður. Eins og félagar hans í hópi útskriftarnema er Rhonjie á fullu við að ljúka sínum lokaverkefnum. Rhonjie, sem er yngstur í hópi útskriftarnema, aðeins 18 ára, segir að námið hafi verið afar áhugavert í alla staði. Hann býr á Akureyri og hefur verið hér á landi undanfarin sjö ár og er íslenskur ríkisborgari.
Halldór Torfi segir að vegna kennaraverkfallsins hafi umfang lokaverkefna nemenda á fyrsta ári verið minnkað svo þeir gætu náð að klára þau. Í ljós verði að koma hversu langt takist að fara með frágang sumarhússins, sem nemendur í byggingadeild smíða og njóta liðsinnis nemenda í rafiðnaðardeild, en að því verði stefnt að ljúka klæðningu þess að innan. Nú þegar er byrjað að setja upp skápa, sem nemendur smíðuðu, og fleiri skápaeininga bíða uppsetningar.
Eins og vera ber verður því í mörg horn að líta hjá verðandi smiðum á lokametrum skólaársins.