Í mörg horn að líta hjá formanninum
Hvað skyldu vera margir klukkutímar í sólarhringnum hjá Stefáni Jóni Péturssyni, formanni stjórnar Þórdunu – skólafélags VMA? Spyr sá sem ekki veit en svo mikið er víst að það geta ekki verið margar mínútur afgangs þegar öll þau verkefni sem hann er með á sinni könnu eru talin saman.
Stefán Jón hefur verið formaður Þórdunu í vetur og hann segir að óneitanlega hafi verið í mörg horn að líta. „Ég held að ég geti sagt að þetta hafi gengið ágætlega og ég vona að okkur hafi tekist að taka skref fram á við í félagslífinu. Að mínu mati hefur gengið ágætlega að virkja nemendur skólans til góðra verka í félagslífinu og ég vona að næsta stjórn, sem verður kjörin í næsta mánuði, haldi áfram og taki næsta skref fram á við.“
Formennska í Þórdunu er að vonum mikil vinna. „Það þarf að halda þessu öllu gangandi og bera ábyrgð á öllu því sem nemendafélagið er að vinna að. Einnig er ég tengiliður við stjórnendur skólans og fyrirtæki sem við erum í samstarfi við út í bæ. Umtalsverður hluti af þessu er skrifstofuvinna, ég þarf mikið að vera í símanum og oft hleyp ég úr tíma til þess að svara símanum.“
Stærsta verkefni hvers skólaárs í félagslífinu er árshátíð VMA, sem verður í Íþróttahöllinni nk. föstudagskvöld. „Hún hefur verið í undirbúningi í allan vetur og núna er komið að því að hefjast handa í Höllinni. Við fáum húsið í kvöld, miðvikudag, kl. 23 og þá komum við til með að vinna hörðum höndum að því að gera allt klárt, leggja teppi, setja upp lýsingu, setja upp sviðið, raða borðum, skreyta húsið o.fl. Vonandi tekst okkur að hafa húsið að mestu klárt annað kvöld, við stefnum að minnsta kosti að því. Það verður um 40 manna hópur nemenda sem kemur til með að vinna að þessu verkefni.“
Að lokinni árshátíð verður rólegra yfir félagslífinu, enda er aðeins hálf önnur vika í páskafríið. Að því loknu nefnir Stefán Jón að fimmtudaginn 14. apríl verði efnt til sameiginlegs vorhlaups VMA og MA, sem var í fyrsta skipti í fyrra og tókst með miklum ágætum. Og laugardaginn 16. apríl verður haldin Söngkeppni framhaldsskóla á Norður- og Austurlandi í Menningarhúsinu Hofi. Átta skólar taka þátt í keppninni. Auk VMA taka þátt Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Framhaldsskólinn á Húsavík, Framhaldsskólinn á Laugum, Verkmenntaskóli Austurlands í Neskaupstað og Framhaldsskóli Austur-Skaftafellssýslu á Höfn. Gert er ráð fyrir 2-3 atriðum frá hverjum skóla. Hljómsveitin sem spilaði í Söngkeppni VMA í febrúar mun spila á þessari sönghátíð í Hofi.
Stefán Jón er að læra vélstjórn og auk þess tekur hann viðskipta- og hagfræðibraut. „Ég neita því ekki að það væri fínt að geta mætt betur í tímana en ég er almennt frekar fljótur að tileinka mér námsefnið. Ég er á fimmta ári í vélstjórn og á eitt ár eftir. Á sínum tíma kom ég beint úr 9. bekk og fór í grunndeild málmiðnaðar og síðan fór ég í vélstjórn. Ég hefði útskrifast núna í vor úr vélstjórn en fyrir ári ákvað ég að bæta við mig viðskipta- og hagfræðibraut og þess vegna á ég ár eftir. Síðan ég var tólf ára gamall hef ég unnið í Fuglasafni Sigurgeirs í Mývatnssveit, en Sigurgeir heitinn var móðurbróðir minn. Í gegnum þessa vinnu kynntist ég rekstri og fékk áhuga á því að læra meira á því sviði. Þess vegna ákvað ég að bæta þessu námi við vélstjórnina. Til viðbótar kem ég til með að fá rafvirkjaréttindin,“ segir Stefán Jón.
En hvað skyldi Stefán Jón stefna á að loknu námi í VMA? Því er fljótsvarað: hann hefur mikinn áhuga á að verða ljósahönnuður og ljósamaður. Þessi baktería hefur heltekið hann síðustu mánuði. Hann tók að sér að vera ljósamaður í uppfærslu Freyvangsleikhússins á Klaufar og kóngsdætur og einnig sá hann um hönnun lýsingar í sýningu Leikfélags VMA í Freyvangi á Bjart með köflum. Og núna er Stefán Jón með þriðju leiksýninguna í vinnslu, Saumastofununa eftir Kjartan Ragnarsson í uppfærslu Freyvangsleikhússins. Frumsýning verður um komandi helgi.