Í mörg horn að líta í 15 þúsund fermetra húsi
Í starfsmannaskrá VMA ber Hafberg Svansson titilinn „umsjónarmaður fasteigna“, sem þýðir að hann er húsvörður skólans. Eins og vera ber hefur Hafberg í mörg horn að líta því að samanlagt eru hús VMA um 15 þúsund fermetrar sem þýðir að hús VMA er í hópi stærstu húsa á Akureyri og raunar er það svo að VMA er einn af stærstu framhaldsskólum landsins.
Tveir starfsmenn starfa við hlið Hafbergs við húsvörslu og ræstingar og þá er um tugur starfsmanna í þrifasveitinni.
„Stutta skilgreiningin á mínu starfi er að halda húsinu í góðu standi,“ segir Hafberg. „Í þessu felst að hafa umsjón með loftræstingu hússins, hafa umsjón með öllu viðhaldi og sjá um að fá iðnaðarmenn ef ráðast þarf í einhverjar viðbætur og svo framvegis. Í stærstu viðhaldsverkefni er ráðist yfir sumarmánuðina þegar skólahald liggur niðri en síðan þarf auðvitað að bregðast við á öðrum tíma ef eitthvað kemur upp á. Í svo stóru og margbrotnu húsi kemur eitthvað upp á nánast á hverjum degi sem þarf að bregðast fljótt við,“ segir Hafberg.
Í eðli þessa starfs felst að vinnutíminn er óreglulegur. Auk venjubundinnar dagvinnu þarf Hafberg að fara í skólann á öllum tímum sólarhrings ef öryggiskerfi gefa til kynna að ekki sé allt eins og það á að vera. Nútíma tækni gerir það að verkum að hann fær boð í símann sinn beint frá öryggiskerfinu ef einhvers staðar er pottur brotinn.
Hafberg segir að vissulega sé mikilvægt á svo stórum vinnustað að fólk gangi vel um og almennt megi segja að fólk geri það. „Við reynum að hafa þetta stóra skólahús eins snyrtilegt og okkur er unnt. Öll gólf eru þvegin daglega. Hér áður fyrr var skólinn þrifinn eftir klukkan fjögur á daginn en núna eru öll þrif hér frá hálf átta á morgnana til sex á daginn.“
Hafberg, sem er trésmiður að mennt, segir að þetta sé áttunda árið sem hann starfi sem húsvörður við VMA. Hann segir að í svona starfi komi sér vissulega vel að vera faglærður iðnaðarmaður. Á sínum tíma hafi hann leyst tímabundið af í húsvörslu í VMA en síðan hafi hann alfarið fært sig í þetta starf. Reyndar var það svo að þegar Híbýli byggði fyrstu álmu VMA á sínum tíma var Hafberg einn þeirra smiða sem lagði hönd á plóg við byggingu hennar.