Í mörg horn að líta í Evrópuverkefnum á önninni
Eins og á haustönn mun VMA áfram taka þátt í fjölmörgum Evrópuverkefnum núna á vorönn. Bæði er um að ræða kennaraverkefni og verkefni þar sem bæði nemendur og kennarar taka þátt. Bróðurpartur þeirra verkefna sem verða í gangi núna á vorönninni er styrktur af Erasmus + styrkjaáætlun ESB.
Í næsta mánuði koma kennarar frá Hollandi í heimsókn í VMA þar sem þeir munu fyrst og fremst kynna sér bóknámsbrautir skólans, listnáms- og hönnunarbraut og sérnámsbraut.
Í febrúar liggur leið nemenda á lokaönn í hársnyrtiiðn og kennara þeirra til Malaga á Spáni þar sem dvalið verður í nokkra daga. Þetta er í þriðja skipti sem nemendur og kennarar í hársnyrtiiðn leggja leið sína til Malaga og hafa fyrri heimsóknir gengið mjög vel. Bæði er um að ræða starfsnámskynningar á vinnustöðum og einnig er farið í skóla og hárakademíu og fræðst um ýmsa gagnlega hluti.
Eitt af þeim nemendaverkefnum sem hafa verið í fullum gangi á síðustu mánuðum er ElEco Team, sem nemendur á rafiðnbraut VMA hafa tekið þátt í. Nemendur og kennarar hafa farið í heimsóknir út fyrir landsteinana og í maí í fyrra komu fulltrúar hinna þátttökuþjóðanna í heimsókn í VMA.
Núna á vorönn liggur leið nokkurra nemenda af rafiðnbraut og kennara þeirra til annars vegar Búdapest í Ungverjalandi í lok febrúar og hins vegar til Celje í Slóveníu í maí. Þessu verkefni lýkur síðan á haustönn 2023.