Í náms- og starfsfræðslu á brautabrú
Náms- og starfsfræðsla er heiti á einum af kjarnaáföngum sem nemendur á brautabrú taka á haustönn. Í áfanganum sækja nemendur kennslustundir á ólíkum námsbrautum skólans og fá þannig sýn á þá ótal mörgu möguleika í námsvali sem skólinn býður upp á. Þess eru mýmörg dæmi að nemendur á brautabrú, sem margir eru óráðnir í námsvali þegar þeir koma í skólann, hafa í þessum áfanga (NÁSS) fundið sínar leiðir í námi.
Um sextíu nemendur eru að þessu sinni á brautabrú og þeim er skipt í hópa sem allir fá sömu kynningar. Um er að ræða kynningar í byggingadeild, rafvirkjun/málmiðnaði, á matvælabraut, listnámsbraut, Fab Lab og sálfræði/sjúkraliðabraut/hárgreiðslu. Nemendur fara í sex til sjö skipti á hverja af þessum námsstöðvum, fjórar kennslustundir í senn. „Hugmyndin með þessu er að kynna nemendum það verknám sem við höfum í boði hér í skólanum. Það er mjög gaman að sjá hversu oft þessar kynningar hafa auðveldað nemendum val sitt í námi,“ segir Harpa Jörundardóttir, brautarstjóri brautabrúar og starfsbrautar VMA.
Sem fyrr segir er Fab Lab ein af þeim námsstöðvum í skólanum sem nemendur kynna sér. Íris Ragnarsdóttir kennari segir að almennt séu nemendur nokkuð fljótir að tileinka sér þá tækni sem Fab Lab bjóði upp á. Fyrst sé farið í kynningu á þeim forritum sem notuð séu til þess að búa til ýmislegt í Fab Lab. Síðan sé nemendum kennt hvernig þeir eigi að nýta sér bæði vínil- og laserskera við að búa til hina ýmsu hluti.