Í stærðfræðikennslu frá stofnun VMA
Haukur Jónsson er einn þeirra fáu kennara í VMA sem hefur starfað við skólann allar götur frá því hann tók til starfa árið 1984. Í gegnum tíðina hefur Haukur fyrst og fremst kennt stærðfræði en einnig grunnteikningu.
Haukur er byggingaverkfræðingur. Hann útskrifaðist frá HÍ árið 1976 og starfaði sem verkfræðingur um sjö ára skeið á Verkfræðistofu Norðurlands á Akureyri. Á þessum tíma var honum ekki efst í huga að fara í kennslu en það breyttist. Haukur rifjar upp að hann hafi verið orðinn þreyttur á verkfræðistörfunum og langað til þess að takast á við eitthvað annað. Stærðfræðikennsla varð fyrir valinu. Fyrsta veturinn kenndi hann stærðfræði við Fjölbrautaskóla Suðurnesja en síðan var hann ráðinn stærðfræðikennari í VMA þegar skólinn hóf starfsemi árið 1984. Þrjátíu og sjö árum síðar er Haukur enn að miðla stærðfræðikunnáttu sinni til nemenda VMA.
Ekki aðeins hefur Haukur verið í kennslu í VMA, hann var um árabil í stjórnunarstöðum við skólann. Á öðru skólaári tók hann við stöðu kennslustjóra tæknisviðs af Aðalgeiri Pálssyni. „Því starfi gegndi ég í nokkur ár en bætti síðan við mig starfi aðstoðarskólameistara þegar Baldvin Bjarnason var ráðinn skólastjóri Gagnfræðaskólans á Akureyri. Staða aðstoðarskólameistara var síðan útvíkkuð og þá hætti ég sem kennslustjóri tæknisviðs og við því starfi tók Brynjar Skaptason. Aðstoðarskólameistarastöðunni gegndi ég þar til Bernharð Haraldsson hætti sem skólameistari árið 1999. Á síðasta ári Bernharðs var hann í veikindaleyfi og þá leysti ég hann af sem skólameistari. Ég hafði hins vegar ekki áhuga á því að halda áfram á þessum vettvangi enda hafði ég fengið nóg af stjórnunarstörfum og vildi einbeita mér að kennslunni, sem ég hef gert síðustu tvo áratugina.
Ég hef ánægju af stærðfræðikennslunni og finnst alltaf jafn gaman að geta hjálpað nemendum að öðlast skilning á faginu. Sumir nemendur líta á stærðfræðina sem einhvers konar sprengjusvæði sem hættulegt er að stíga inn á og ef þeir geri það,stórskaðist þeir. Ég lít á mitt hlutverk að finna nýjar leiðir fyrir þá í gegnum sprengjubeltið og um leið að forðast gamlar gildrur. Ég hef því alltaf lagt litla áherslu á sannanir á stærðfræðireglum en meiri á að kenna nemendum að nota þær og vinna með þær. Og í leiðinni reyni ég að hamra á grunnreglum stærðfræðinnar og forða þeim frá sömu mistökum og margir nemendur á undan þeim hafa gert. Stundum tekst þetta og stundum ekki, en það er alltaf ánægjulegt þegar maður sér jákvæðan árangur af starfinu.
Þó svo að stærðfræðin sjálf hafi tekið litlum breytingum hafa kennsluaðferðir breyst á síðustu árum með tilkomu tölvutækninnar. Ef til vill má segja að ég sé steinrunninn í faginu því ég held mig ennþá við gömlu aðferðirnar í kennslunni sem ég kynntist í menntaskóla, fyrir bráðum fimmtíu árum. Auðvitað hef ég nýtt mér ýmislegt úr tölvutækninni í kennslunni og notað kennslukerfi eins og Moodle til þess að auðvelda aðgengi nemenda, en eftir sem áður er taflan og tússið mín helstu verkfæri í kennslunni. Ég reyni að hafa kennslustundirnar tvískiptar og miða við að tala aldrei meira en helming tímans en seinni hlutann nýti ég fyrst og fremst til verkefnavinnu“ segir Haukur.
Þegar Haukur er beðinn um að horfa til þeirra ára sem hann hefur kennt í VMA segir hann að nemendur í dag séu kurteisari en þegar hann byrjaði að kenna fyrir hartnær fjörutíu árum. „Almennt hef ég ekki þurft að kvarta yfir nemendum og mér finnst áberandi hversu kurteisir nemendur eru núna, algengt er að þeir komi til mín eftir kennslustundir og þakki fyrir þær, sem er mjög ánægjulegt. Ég hef haft mikla ánægju af því að vinna með ungu fólki og það er alltaf jafn gaman að sjá þegar góður árangur næst. Þeir nemendur sem vinna jafnt og þétt og tileinka sér það sem þeir eiga að gera ná árangri. Ástundun og árangur helst í hendur í stærðfræðinni eins og öðrum námsgreinum,“ segir Haukur.
Stærðfræðigrunnur Hauks úr verkfræðinni er góður en hann segist ekki síður hafa áhuga á tungumálum. Til marks um það hafi hann nýtt námsleyfi sitt fyrir nokkrum árum til þess að dvelja á Spáni og læra spænsku og sömuleiðis hafi hann tekið áfanga í frönsku í fjarnámi við VMA fyrir mörgum árum.
Haukur er sextíu og átta ára gamall og má því kenna í tvö ár til viðbótar. Að því stefnir hann. „Ég stefni að því að verða sá kennari innan skólans sem hefur lengstan starfsaldur og þeim starfstíma geti enginn annar kennari við skólann nokkurn tímann náð,“ segir Haukur og brosir.
Haukur er áhugasamur kylfingur. Sumrin nýtir hann vel á Jaðarsvelli með m.a. samstarfsmönnum sínum úr VMA. Fastur liður er að þeir sem á annað borð eru í bænum hittast virka daga að morgni dags á Jaðri og byrja að spila eigi síðar en klukkan hálf níu og sveifla kylfunum til hádegis. Golfið er góð íþrótt á allan hátt, segir Haukur, og hann segist sjá mjög eftir því að hafa ekki byrjað í henni miklu fyrr.