Fara í efni

Á Erasmus styrk í starfsnámi á hársnyrtistofu í Póllandi

Anastazja Dyrlaga.
Anastazja Dyrlaga.

Þrettán ára gömul flutti Anastazja Dyrlaga með fjölskyldu sinni frá Póllandi til Íslands. Fyrstu árin bjó fjölskyldan á Þórshöfn en árið 2021 lá leiðin í Neskaupstað, þar sem Anastazja býr nú með foreldrum sínum og systkinum.

Anastazja fékk ung að árum mikinn áhuga á förðun og hárgreiðslu og því var aldrei spurning um í hvaða nám hún vildi fara. Þegar Anastazja var komin á framhaldsskólaaldur þurfti hún að bíða í eina önn eftir að nýr námshópur færi af stað í hársnyrtiiðn í VMA. Fyrstu önnina í VMA var hún í sjúkraliðanámi en færði sig síðan yfir í hársnyrtiiðnina.

Í desember sl. var komið að námslokum og Anastazja brautskráðist úr hársnyrtiiðninni. Upp úr áramótum fór hún síðan til Póllands, til Wegierska Górka, bæjar sem er syðst í Póllandi, þaðan er örstutt yfir til Tékklands og Slóvakíu, til þess að vinna á hársnyrtistofu og safna reynslu fyrir ferilbók sína í hársnyrtiiðn. Til þess að kosta Póllandsferðina fékk Anastazja styrk úr Erasmus+ styrkjaáætlun ESB. Anastzia rifjar upp að hún hafi fengið hugmynd að því að sækja um Erasmus styrk til þess að fara til Póllands og fá aukna reynslu eftir að hafa hlýtt á Kormák Rögnvaldsson, sem lærði einnig hársnyrtiiðn í VMA og fékk fyrir hálfu öðru ári Erasmus styrk til starfsnáms í Stokkhólmi í Svíþjóð. Auðvelt var fyrir Anastazju að fá vinnu í Wegierska Górka því vinkona móður hennar rekur þar hárgreiðslustofu og á þeirri stofu vann Anastazja í tvo mánuði, frá 6. janúar til 7. mars. Anastazja á bæði föður- og móðurömmu í Wegierska Górka, raunar búa þær í sömu götu, og því var heldur ekkert vandamál með húsnæði á meðan á dvölinni ytra stóð. 

Anastazja segist vera mjög þakklát fyrir að hafa fengið þennan Erasmus+ styrk sem hafi gert henni kleift að fá þetta ánægjulega og lærdómsríka tækifæri til að starfa í hársnyrtiiðninni í Póllandi. Hún segir að hártískustraumarnir í Póllandi séu ekki ósvipaðir straumum og stefnum í hárinu hér á landi um þessar mundir.

Meistari Anastazju er á hársnyrtistofunni Adell á Akureyri og þar fór hún að vinna strax og hún sneri aftur heim frá Póllandi. Hún segist koma til með að vinna þar áfram og ef vel gangi og hún hafi aflað sér nægrar reynslu hafi hún áhuga á að stefna á sveinspróf í hársnyrtiiðn í október á þessu ári.

Anastazja segist ætla sér að starfa í framtíðinni í hársnyrtiiðninni, mögulega setji hún síðar upp eigin stofu, e.t.v. í heimabænum Neskaupstað eða annars staðar á Austurlandi. Allt eigi það eftir að koma í ljós í fyllingu tímans.