Fara í efni

Í úrslit Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna þriðja árið í röð

Víkingur Þorri Reykjalín Sigurðsson, nemandi í VMA, tekur þátt í úrslitum Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna sem fer að öllu óbreyttu fram í mars á næsta ári. Hann var í hópi nemenda í VMA sem tóku þátt í forkeppni Stærðfræðikeppninnar þann 1. október sl. og hafnaði í þriðja sæti á efra stigi keppninnar.

Víkingur Þorri þekkir orðið vel til Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna því þetta er þriðja árið í röð sem hann tryggir sér farseðilinn í úrslit keppninnar.

Árið 2022 tryggðu hann og Theodóra Tinna systir hans sér sæti í úrslitunum. Í þeim varð Víkingur Þorri efstur á neðra stigi keppninnar og fékk í kjölfarið þátttökurétt í Norrænu stærðfræðikeppnina. Árangur hans þar tryggði honum setu í keppnisliði Íslands á Ólympíuleikunum í stærðfræði sumarið 2023.

Í nóvember 2023 tók Víkingur Þorri þátt í Eystrasaltskeppninni í stærðfræði í þýsku borginni Flensborg, skammt sunnan landamæra Þýskalands og Danmerkur og hann keppti síðan í úrslitum Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna í febrúar á þessu ári og lenti í fimmta sæti á efra stigi.