Innlit á listnáms- og hönnunarbraut
Við annarlok hefur verið fastur liður að nemendur á listnáms- og hönnunarbraut sýni brot af því besta sem þeir hafa verið að vinna að á önninni. Opið hús hefur verið fastur liður að kvöldi síðasta kennsludags annarinnar, sem var í gær, en af því gat ekki orðið að þessu sinni vegna sóttvarnareglna og fjöldatakmarkana. En sem smá sárabót eru hér birtar myndir af nokkrum af þeim fjölmörgu skemmtilegu verkum sem nemendur hafa unnið að á önninni.
Hér má sjá myndverk sem nemendur á fyrsta ári unnu undir handleiðslu Helgu Jónasdóttur og Örnu Valsdóttur. Listakonan Lillý Erla Adamsdóttir kynnti fyrir nemendum listsköpun sína, sem m.a. felst í gerð loðinna myndverka. Nemendur létu sköpunargleðina njóta sín í anda Lillýjar Erlu.
Í lita- og formfræði spreyttu nýnemar sig á að vinna myndverk í anda gömlu meistaranna og má hér sjá nokkur þeirra verka.
Einnig var sköpunargáfan við völd þegar nemendur unnu skúlptúra og lágmyndir af ýmsum gerðum.