InnoVET fundur í Vilnius
Í byrjun nóvember fóru Hildur Friðriksdóttir og Jóhannes Árnason sem fulltrúar VMA á fund í Vilnius í Litháen. Var fundurinn haldinn í tengslum við Erasmus samstarfsverkefnið InnoVET sem gengur út á tengsl byggðaþróunar og iðnnáms. Þetta var fimmti fundur verkefnisins en þátttakendur eiga eftir að hittast tvisvar sinnum í viðbót áður en verkefninu lýkur formlega vorið 2019.
Heimsókninni var ætlað að kynna samstarfsaðilum fyrir þeim áskorunum sem íbúar í dreifðum byggðum Litháens standa frammi fyrir í atvinnulegu tilliti. Dagskrá heimsóknarinnar var svohljóðandi:
-
Darguziai Crafts Centre var heimsótt en þar tók forstöðukona þess á móti okkur ásamt embættismönnum og stjórnmálamönnum af sveitarstjórnarstiginu. Farið var yfir það með hvaða hætti miðstöðin hefur beitt sér fyrir því að standa vörð um svæðisbundna hefði og siði og gera búsetu á dreifbýlum svæðum aðlaðandi.
-
Við heimsóttum einnig bændabýli sem fólk úr samtökunum Viva-Sol eru með. Þau eru með 60 geitur og framleiða að meðaltali 200 lítra af geitamjólk á dag og búa til osta úr allri mjólkinni. Þau fara svo einu sinni í viku með osta á bændamarkað í Vilnius þar sem koma saman ýmsir framleiðendur (beint frá býli) sem selja vörur sínar. Viva-Sol samtökin eru einmitt samtök slíkra aðila og fleiri sem er annt um svæðið og þróun þess
-
Fyrsta daginn fórum við einnig á kaffihús/veitingastað þar sem líka eru til sölu framleiðsluvörur heimamanna t.d. ostur. Þar sköpuðust líflegar umræður um það hvað ræður því hvort fólk tekur frumkvæði og byrjar að skapa eitthvað nýtt sem það getur þróað og haft afkomu af.
-
Annan daginn var farið í skólann Sodzius Meistrai sem sinnir verklegu námi. Þar tók á móti okkur Dalia skólameistari en hún er einnig hluti af hópnum sem stendur að Viva-Sol samtökunum. Skólinn er bara með 64 nemendur og þeir eru yfirleitt í 3 – 4 vikur í skólanum og svo jafnlangan tíma á vinnustöðum.. Boðið er uppá nám í húsasmíði og húsgagnasmíði, þakvinnu (roofing), matreiðslu, kökugerð (konditori) og garðyrkju.
-
Síðar um daginn var farið í handverksmiðstöð í Trakai en þar fengum við kynningu á handverki í Litháen. Það er greinilegt að mikið er búið að vinna með handverkshefðir og skilgreina þær en handverk og hefðir á mörgum sviðum lúta reglum um að fólk þarf viðurkenningu ákveðinnar stofnunar til að geta kalla sig hefðbunda handverksmenn. Það er greinilegt að hefðir eru mikilvægar meðal annars til að skapa þjóðinni sérstöðu og sjálfstæði.
-
Síðasti dagurinn fór allur í fundahald. Farið var yfir módelið sem við notum til að skoða og greina landssæði og einkenni þeirra. Einnig var farið yfir mörg praktísk atriði varðandi afganginn af verkefninu en því lýkur á fundum á Reunion eyju í Indlandshafi í maí 2019 og í Brussel í júní 2019.