Með Instagramreikning fyrir átak Amnesty
Þessa dagana beina nemendur í félagsfræðiáfanga hjá Valgerði Dögg Jónsdóttur og Þorsteini Kruger sjónum sínum að mannréttindum og lýðræði í heiminum. Í því skyni er m.a. fjallað um baráttu Amnesty International í þágu fólks sem samtökin telja að stjórnvöld í viðkomandi löndum hafi beitt órétti og brotið á mannréttindum þeirra. Átak Amnesty kallast Þitt nafn bjargar lífi.
Unnið er að því um allan heim að safna undirskriftum milljóna manna í því skyni að krefja stjórnvöld sem brjóta mannréttindi á þegnum sínum um réttlæti fyrir þolendur mannréttindabrota. Á heimasíðu Íslandsdeildar Amnesty International má sjá upplýsingar um þá einstaklinga sem samtökin eru nú að berjast fyrir. Stefnt er að því að safna 70 þúsund undirskriftum hér á landi og nemendur í félagsfræðiáfanganum hjá Valgerði og Þorsteini leggja því máli lið og skora á alla að skrifa undir. Það er gert með því að fara inn á heimasíðu Amnesty.
Í lýsingu á umræddum félagsfræðiáfanga segir:
Fjallað er um mannréttindi og lýðræði að fornu og nýju. Sagan er rakin í grófum dráttum frá klassískri fornöld til nútímans með áherslu á mannréttindabaráttu síðustu alda. Mannnréttindabarátta 20. aldar verður könnuð sérstaklega og má þar nefna stofnun Sameinuðu þjóðanna og samþykkt mannréttindayfirlýsingarinnar. Þá verða mannréttindi sem birtast m.a. í stjórnarskrá Íslands skoðuð m.t.t. umræðu í nútímanum um mannréttindi og meint brot á þeim gagnvart ýmsum hópum og einstaklingum á Íslandi. Gerð verður grein fyrir alþjóðlegum mannréttindasamningum og sáttmálum sem Ísland á aðild að og ljósi varpað á orðræðu nútímans um mannréttindi og skort á þeim bæði hér á landi og vítt og breitt um heiminn. Áhersla á að tengja námsefnið reynsluheimi nemanda, auka víðsýni hans og rökhugsun og sjálfstæð og öguð vinnubrögð. Nemandinn þjálfast í heimildavinnu- og rýni af ýmsu tagi.
Í hópi nemendanna í þessum áfanga eru Þórdís Ómarsdóttir, Sigríður Láretta Þorgilsdóttir og Karla Anna Karlsdóttir, sem allar eru á félags- og hugvísindabraut VMA og eru að ljúka þriðju önninni í námi sínu í skólanum. Verkefnið sem þær stöllur vinna að felst í því að vekja athygli á undirskriftasöfnun Amnesty International og safna sem flestum undirskriftum. Nemendurnir hafa stofnað Instagram reikning þar sem eru skrifaðar færslur og rakin mál þess fólks sem Amnesty berst nú fyrir. Sérstök áhersla er lögð á að ná eyrum og augum ungs fólks og vekja áhuga þess og virkja krafta þess í þágu málstaðarins.
Þórdís, Sigríður og Karla eru sammála um að áður en þær fóru í þennan áfanga í félagsfræði hafi þær ekki mikið velt mannréttindamálum og starfsemi Amnesty International fyrir sér. Þeim hafi komið á óvart hversu mikið væri um alvarleg mannréttindabrot af ýmsum toga út um allan heim. Einnig hafi komið þeim á óvart hversu öflug samtök Amnesty séu og í hversu mörgum löndum þau láti til sín taka.
En hversu lengi verður Instagram reikningurinn virkur í þágu þessa verkefnis? Ætlunin er, segja Þórdís, Sigríður og Karla, að halda undirskriftasöfnuninni áfram til næstu mánaðamóta og þar til verði settar inn færslur á Instagram reikninginn.