Írena Fönn keppir á EuroSkills í Gdansk
Á Íslandsmóti iðn- og verkgreina í Reykjavík í mars sl. sigraði Írena Fönn Clemmensen, sem brautskráðist í hársnyrtiiðn árið 2020 frá VMA, keppni sveina og meistara í hársnyrtiiðn. Þar með tryggði hún sér farseðilinn á EuroSkills 2023 í Gdansk í Póllandi, sem er eins konar Evrópumeistaramót iðn- og verkgreina. Mótið verður haldið í þessari viku.
Opnunarhátíð EruoSkills 2023 verður á morgun, þriðjudag, en keppnin sjálf verður frá nk. miðvikudegi til föstudags. Lokahátíðin verður síðan laugardaginn 9. september.
Þáttaka í móti sem þessu krefst gríðarlega mikils undirbúnings og hefur Írena Fönn ekki slegið slöku við frá því hún varð Íslandsmeistari sl. vetur. Tveir þjálfarar hafa verið henni til aðstoðar, Harpa Birgisdóttir kennari í VMA og Sigurlaug Ingvadóttir kennari í Tækniskólanum og verða þær báðar Írenu til aðstoðar í Gdansk í vikunni. Stífar æfingar hafa verið í allt sumar, bæði norðan og sunnan heiða, og þar að auki var Írena Fönn um tíma á Ítalíu í sumar á Erasmus styrk.
EuroSkills hátíðin er haldin að jafnaði annað hvert ár en á meðan á kóvidfaraldrinum stóð var ekki unnt að halda hana. Við það er miðað að halda Íslandsmót iðn- og verkgreina að vori sama ár og EuroSkills er haldin að hausti, með það í huga að Íslandsmeistararnir geti undirbúið sig vel fyrir þátttöku á hinu stóra evrópska sviði.
Auk Hörpu Birgisdóttur verða sex úr hópi starfsmanna VMA á EuroSkills í Gdansk í vikunni; Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari, Anna María Jónsdóttir sviðsstjóri verknáms, Helgi Valur Harðarson brautarstjóri byggingagreina, Jóhann Hjaltdal Þorsteinsson kennari í byggingagreinum, Ari Baldursson kennari í rafiðngreinum og Þórhallur Tómas Buchholz kennari í rafiðngreinum.