Íslenskan er erfið
Tvær stúlkur eru í vetur skiptinemar í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Þetta eru annars vegar Sofia Mullor Pla frá Valencia á Spáni og hins vegar Anna Schreurs frá Brussel í Belgíu. Þær komu til Akureyrar í ágúst sl. og dvelja hér á landi í allan vetur og stunda nám í VMA. Báðar eru þær átján ára gamlar og hafa lokið framhaldsskóla í sínum heimalöndum. En með Íslandsdvölinni vildu þær útvíkka sjóndeildarhringinn og kynnast einhverju nýju.
Anna: Ástæðan fyrir því að ég kom til Íslands er kannski sú að ég mér líkar betur að vera
í svölu loftslagi og sömuleiðis er ég náttúruunnandi. Einnig fannst mér áhugavert að kynnast íslensku skólakerfi.
Sofia: Ég hef lengi hrifist af norrænni menningu og þegar mér bauðst að fara til Íslands ákvað ég að slá til.
Vinir mínir voru ekki ekki með staðsetningu landsins alveg á hreinu því þeir spurðu mig hvort það væri skammt undan ströndum
Ástralíu!
Ég er mjög ánægð með að hafa valið þennan kost. Auðvitað var margt hér mér töluvert framandi, til dæmis að fara
úr skónum í húsum, en því venst maður eins og öðru.
Anna: Já, og þessi ást Íslendinga á að fá sér ís, jafnvel þótt kalt sé í veðri. Heima er
ég vön því að fá mér ís einungis þegar afar heitt er í veðri!
Sofia: Og það er töluverður munur á matmálstímum á Íslandi og Spáni. Á Spáni er kvöldmatur yfirleitt
ekki snæddur fyrr en um klukkan tíu um kvöldið en hér er borðað um sjöleytið. Fyrst fannst mér þetta skrítið og ég var
að drepast úr hungri þegar leið á kvöldið en núna er ég farin að venjast þessu eins og öðru.
Anna: Ég er mjög ánægð með það fyrirkomulag sem er á kennslu hér í VMA. Hér eru nemendur
sjálfstæðari og gerðir ábyrgari í sínu námi en ég þekki heiman frá. Þar horfðu kennararnir ansi mikið yfir
öxlina á manni en hér fær maður meira svigrúm.
Sofia: Ég tek undir þetta. Á Spáni er margt matreitt ofan í nemendur og þeir verða að fylgja í einu og öllu
því sem skólinn leggur fyrir. Hér í VMA eru leiðirnar svo margar og mismunandi og það er mjög gaman. Og svo eru krakkar hér mun
frjálslegri á allan hátt en á Spáni og þeir leyfa sér að vera öðruvísi í klæðnaði, hárgreiðslu
o.fl. Það kann ég að meta.
En íslenskan er erfið og mjög frábrugðin þeim tungumálum sem ég hef lært. Málfræðin er sérstaklega erfið.
Anna: Já, það er rétt og framburðurinn líka. En ég ætla mér að ná sem bestum tökum á íslenskunni.
En það verður svo að koma í ljós hvernig til tekst.
Sofia: Já, að sjálfsögðu viljum við læra íslenskuna því hér fer kennslan fram á íslensku og við
viljum líka tala íslensku við fjölskyldurnar okkar hér á Akureyri.
Anna: Við lærum ýmislegt hér. Auk íslenskunnar lærum við til dæmis matreiðslu, sem er mjög skemmtilegt.
Ég er vön snjó frá Belgíu en ekki eins miklum og okkur er sagt að komi hér. Það verður því ný reynsla.
Sofia: Við fáum ekki snjó í Valencia og því get ég vart beðið eftir að sjá snjó hér. Við ætlum
okkur sannarlega að fara í Hlíðarfjall í vetur.