Fara í efni

Íslenskubrú í VMA

Gígja Hólmgeirsdóttir útvarpskona ræðir við nemendur af erlendum uppruna í Gryfjunni. Mynd: Jóhanna …
Gígja Hólmgeirsdóttir útvarpskona ræðir við nemendur af erlendum uppruna í Gryfjunni. Mynd: Jóhanna Björk Sveinbjörnsdóttir

Íslenskubrú er heiti á tilraunaverkefni í VMA núna á vorönn. Með þessu verkefni má segja að sé verið að prufukeyra námsbraut fyrir nemendur af erlendum uppruna þar sem aukin áhersla er á íslenskunám nemenda.

Nemendum af erlendum uppruna hefur fjölgað mjög á undanförnum árum í hérlendum skólum sem helst að sjálfsögðu í hendur við fjölgun fólks af erlendum uppruna á Íslandi. Samkvæmt nýjustu tölum er hátt í fimmtungur þeirra sem búa hér á landi af erlendum uppruna. VMA er engin undantekning frá þessu, nemendum af erlendum uppruna sem hafa lítinn eða engan grunn í íslensku hefur fjölgað ár frá ári. Árið 2022 var Jóhanna Björk Sveinbjörnsdóttir ráðin verkefnastjóri erlenda nema við VMA og fljótlega fór hún að velta fyrir sér hvernig unnt væri að auka kennslu í íslensku fyrir þennan hóp nemenda því grunnurinn að svo ótal mörgu í samfélaginu er að hafa góðan grunn í tungumálinu. Jóhanna segist hafa horft til þess að næsta haust yrði stofnuð sérstök námsbraut fyrir þessa nemendur í skólanum en stjórnendur skólans hafi tekið um það ákvörðun að láta á þetta reyna strax núna á vorönn og litið sé á þetta sem tilraunaverkefni sem síðan verði mótað áfram með formlegri námsbraut.

Í það heila eru núna um 25 nemendur af erlendum uppruna í VMA sem þetta tilraunaverkefni tekur til. Um helmingur þeirra er að taka sín fyrstu skref í íslensku en hinn helmingurinn er kominn aðeins lengra og lærir nú íslensku í áfanganum ÍSAN – íslenska fyrir erlenda nemendur – á öðru þrepi.

Jóhanna segir að VMA sé síður en svo að finna upp hjólið í þessum efnum, við mótun þessarar tilraunabrautar hafi í ríkum mæli verið horft til reynslu af slíkum námsbrautum í Tækniskólanum og Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í Reykjavík. Mikilvægt sé að byggja á þeirri reynslu sem hafi fengist í öðrum skólum og afar gagnlegt hafi verið að fá upplýsingar frá þeim.

Jóhanna segir að í ljós eigi eftir að koma hvernig þetta verkefni gangi en tilfinning sín sé sú að það fari vel af stað. Mikilvægt sé að læra og safna í sarpinn um hvernig best sé að standa að kennslunni, hvaða kennsluaðferðir og áfangar virki í því skyni að efla íslenskufærni nemenda og búa þá sem best undir frekara nám í íslensku skólakerfi og/eða á vinnumarkaði.

Um þetta tilraunaverkefni ræddu Jóhanna og Harpa Jörundardóttir, sviðsstjóri brautabrúar og starfsbrautar VMA, við Gígju Hólmgeirsdóttur í Mannlega þættinum á Rás 1 í Ríkisútvarpinu í gær. Hér er viðtalið

 

.