Johan Rönning styrkir rafiðndeild VMA
Johan Rönning er einn af sterkum bakhjörlum rafiðndeildar VMA og hefur áður sýnt stuðning sinn í verki. Í dag hélt fyrirtækið uppteknum hætti og gaf rafiðndeild skipabakka, vírarennur, sjálfvör og raftengi sem eru mikilvægur þáttur í uppsetningu á 40 stýritöflum sem munu nýtast afar vel í kennslu verðandi rafvirkja og rafeindavirkja. Gjöfin var afhent með formlegum hætti í nýbyggingu fyrirtækisins á Óseyri á Akureyri. Að undanförnu hefur fyrirtækið verið að flytja starfsemi sína í hið nýja húsnæði og þeim flutningum lýkur um helgina. Næstkomandi mánudag verður verslunin opnuð með formlegum hætti. Eftir sem áður verður Sindri til húsa í Draupnisgötu 2, þar til nýbygging fyrir starfsemina á Óseyri, skammt austan nýbyggingar Rönning, verður að óbreyttu tilbúin á næsta ári.
Kennarar í rafiðndeild hafa lengi horft til þess að hver nemandi hefði afnot af stýritöflu og þannig gæti hver og einn unnið að verkefnum á sínum eigin hraða. Í upphafi vorannar létu kennarar á rafiðndeild ekki við svo búið standa og ákváðu að ráðast í þetta verkefni. Björn Hreinsson, einn af kennurunum á rafiðndeild, hefur leitt verkefnið og lagt línur um hönnun stýritaflanna, sem eru notaðar í kennslu í stýringum á fyrstu tveimur önnunum í náminu í VMA. Hver tafla er spónaplata og á hana eru festur búnaður sem til þarf. Allt eftir kúnstarinnar reglum og eitt og annað í töfluna þrívíddarprentaði Björn. En annan búnað, sem að framan er nefndur, þurfti að fá frá birgjum og þar kom Johan Rönning sterkur inn og styrkir rafiðndeild og skólann með því að láta í té þennan búnað fyrir allar 40 stýritöflurnar. Kennarar í rafiðndeild hafa setið stíft við þessa viku og raðað búnaðinum á töflurnar. Allt verður þetta orðið klárt þegar blásið verður til haustannar í ágúst nk.
Sem fyrr segir mun Johan Rönning opna nýja og glæsilega verslun á Óseyri nk. mánudag og raunar er undir sama þaki fyrirtækið Vatn og veitur og einnig eru þar vörur frá Ísleifi Jónssyni og S.Guðjónssyni. Öll eru þessi fyrirtæki undir regnhlíf Fagkaupa sem og einnig Sindri, KH vinnuföt, Fossberg, Áltak, Varma- og vélaverk og Hagblikk. Hið nýja hús er 2000 fermetrar að grunnfleti, þar af 1500 fermetra verslunarhúsnæði og 500 fermetra lagerhúsnæði.
Meðfylgjandi mynd var tekin í hinni nýju verslun í dag þar sem Benedikt Barðason aðstoðarskólameistari VMA og Ágúst Axelsson viðskiptastjóri Johan Rönning handsöluðu gjöf JR.
Frá vinstri: Óskar Ingi Sigurðsson kennari í rafiðndeild, Benedikt Barðason aðstoðarskólameistari, Björn Hreinsson kennari í rafiðndeild, Ágúst Axelsson viðskiptastjóri Johan Rönning á Akureyri, Haukur Eiríksson brautarstjóri og kennari í rafiðndeild, Guðmundur Geirsson kennari í rafiðndeild og Gunnar Möller brautarstjóri vélstjórnargreina í VMA.
VMA þakkar Johan Rönning fyrir höfðninglegan stuðning og óskar fyrirtækinu til hamingju með nýja og glæsilega starfsstöð á Akureyri.