Jonna ræddi um listsköpun sína
Mikilsverður þáttur í námi nemenda á listnáms- og hönnunarbraut er að fá innsýn í hugarheim og list starfandi listafólks.
Í vikunni kom Jónbjörg Sigurðardóttir - Jonna myndlistarkona á Akureyri í heimsókn í VMA og fjallaði um líf sitt og list fyrir nemendur og kennara á listnáms- og hönnunarbraut. Fyrirlesturinn var afar fróðlegur og gaf góða sýn á hvað Jonna er að gera og hefur verið að fást við í listsköpun sinni á undanförnum árum.
Jonna útskrifaðist úr fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri vorið 1995 og sem fatahönnuður frá Københavns Mode- og Designskole 2011.
Hún hefur verið afar virk í listalífinu á Akureyri síðustu árin og haldið einkasýningar, tekið þátt í samsýningum og staðið fyrir alls kyns uppákomum. Jonna hefur sannarlega farið ótroðnar slóðir í listinni og unnið með afar fjölbreyttan efnivið. Til dæmis vöktu verk hennar á sýningunni Tíðahvörf í Mjólkurbúðinni á Akureyri fyrir fimm árum mikla athygli en þau voru unnin úr túrtöppum og akrýlmálningu.
Eitt verka Jonnu sem unnið er á þennan hátt sýnir framhlið Akureyrarkirkju og prýðir vegg í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju.