Joris Rademaker á leiðinni
Í dag, þriðjudaginn 5. mars, kl. 17:00-17:40, heldur myndlistarmaðurinn Joris Rademaker þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Á leiðinni. Í fyrirlestrinum fjallar hann um vegferð sína í listinni og sýnir stutt myndband sem var gert í tengslum við sýningu hans í Listasafninu á Akureyri árið 2010. Einnig sýnir Joris nokkur málverk sem verða til umfjöllunar. Í lok fyrirlestursins mun Joris fremja gjörning.
Joris Rademaker er fæddur í Hollandi 1958 og nam listkennslu í Tilburg og síðar myndlist í AKÍ í Enschede, þar sem fjöldi Íslendinga hefur stundað nám. Hann flutti til Íslands 1991 og hefur síðan unnið að myndlist og haldið fjölda sýninga, en einnig starfaði hann sem myndmenntakennari í Brekkuskóla á Akureyri. Hann var bæjarlistamaður Akureyrar 2006 og hlaut sex mánaða starfslaun myndlistamanna 2014. Á Íslandi hefur hann m.a. sýnt verk sín í Nýlistasafninu, Grafíksalnum, Listasafni Reykjavíkur, Safnasafninu, Safnahúsinu, Deiglunni, Kaktus, Mjólkurbúðinni og Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Einnig hefur hann sýnt verk sín í Hollandi, Svíþjóð og Þýskalandi.
Á síðustu árum hefur Joris gert tilraunir með lífræn efni eins og rekavið, hvönn, greinar og rætur ásamt fjöðrum, sem hann safnar í gönguferðum. Tilgangurinn er að sýna tengsl orku náttúrunnar við fólkið og umhverfið. Fjaðrirnar eru táknrænar fyrir löngun mannsins til að ferðast bæði í huganum og í raunheimum. Stundum eru fjaðrirnar eins og hugmyndir sem erfitt er að handfesta. Greinar og rætur eru annað áberandi þema í verkum Jorisar, en sjálfur segist hann rannsaka í listsköpun sinni og leika sér með grundvallarþætti náttúrunnar. Að skapa og hlusta á innsæið er hans aðferð til að lifa og fá meiri skilning á umhverfinu og lífinu sjálfu. Listaverk Jorisar eru oftast táknræn; þau túlka, tjá tilfinningar og lýsa sambandi og tengslum manns og náttúru á persónulegan hátt.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins á Akureyri. Aðgangur er ókeypis.