Rafvirkinn úr VMA á leið á Silverstone
Arnór Eiðsson stundar nám í rafmagnstæknifræði í Háskólanum í Reykjavík og hefur í vetur tekið þátt í smíði á kappakstursbíl sem verður ekið í Formula Student keppninni á þeirri frægu Silverstone braut í Bretlandi í júlí í sumar. Arnór var á sínum tíma í Verkmenntaskólanum á Akureyri og útskrifaðist þaðan bæði sem rafvirki og stúdent. Náminu lauk hann vorið 2015.
Arnór á ekki langt að sækja áhugann á tækni og vélum því hann er frá Árteigi í Út-Kinn, þar sem faðir hans, Eiður Jónsson, og föðurbróðir, Arngrímur, reka vélaverkstæði þar sem m.a. eru smíðaðar túrbínur, eins og við sögðum frá hér á heimasíðunni á dögunum.
Í frétt á RÚV á dögunum var fjallað um smíði kappakstursbílsins í HR. Arnór kom þar fram fyrir hönd nemenda og sagði frá bílnum. Þessi skemmtilega mynd, sem birtist á heimasíðu Samtaka iðnaðarins, var tekin við þetta tækifæri og hér má sjá Þórdísi Arnljótsdóttur fréttamann á RÚV taka viðtal við Arnór.
Þetta er þriðja árið í röð sem nemendur í tækni- og verkfræðideild HR, sem kalla sig Team Sleipnir, smíða kappakstursbíl til þess að taka þátt í Formula Student keppninni á hinni sögufrægu Silverstone-braut í Bretlandi í júlí. Það eina sem nemendur hafa ekki smíðað er sjálf vél bílsins, sem er fjögurra cylindra vél úr Yamaha mótorhjóli. Loftinntak, stýri og ýmsir aðrir íhlutir bílsins eru þrívíddarprentaðir. Þá var drif, hjólafestur og mót fyrir yfirbyggingu smíðuð í CNC fræsi- og rennibekkjum í HR. Bíllinn er 85 hestöfl, 230 kg að þyngd og nær á annað hundrað kílómetra hraða.
Í fyrra gekk Team Sleipni mjög vel og hafnaði í 15. sæti af 75. Í ár er bíllinn töluvert léttari og þá hefur bremsubúnaður og fjöðrun verið bætt og tölvuvæðing aukin í mælaborði og stýri. Bíllinn gengur fyrir 15% bensíni og 85% etanóli. Í keppninni í ár hefur Team Sleipnir sett sér það markmið að komast í topp tíu á Silverstone.
Að loknu námi í rafvirkjun og stúdentsprófi í VMA fór Arnór í rafmagnsverkfræði í Háskóla Íslands og lauk fyrsta árinu. Ákvað þá að fara í rafmagnstæknifræði í Háskólanum í Reykjavík og hefur nú lokið tveimur af þremur og hálfu ári til BS-prófs. Hann á sem sagt eitt ár eftir í skólanum og á síðustu önninni vinnur hann lokaverkefni. Að óbreyttu lýkur hann náminu um jól 2019. Arnór segir að sá grunnur sem hann fékk í VMA með því að læra rafvirkjun og taka stúdentspróf hafi nýst sér frábærlega vel í náminu í bæði HÍ og HR og hann segir engan vafa á því að slíkur grunnur sé betri fyrir rafmagnstæknifræði en ef hann hefði einungis tekið stúdentsprófið og farið síðan beint í tæknifræðina. Námið í rafvirkjuninni geri gæfumuninn og auki skilninginn verulega þegar komið er út í flóknari hluti í rafmagnstæknifræðinni. Arnór segist mæla sérstaklega með þessum grunni - hvort sem er rafvirkjun eða rafeindavirkjun, auk stúdentsprófs, fyrir slíkt háskólanám. Í sumar mun Arnór starfa, þriðja sumarið í röð, á verkfræðistofunni Mannviti í Reykjavík.
Varðandi keppnina á Silverstone í sumar segir Arnór að verði áhugavert að sjá hvernig Team Sleipni vegni með nýja bílinn. Að baki sé gríðarleg vinna, sem í senn hafi verið mikill lærdómur og sérlega skemmtilegur leiðangur. Dómnefnd horfi ekki aðeins til aksturseiginleika bílsins, einnig sé m.a. horft til hönnunar bílsins, kostnaðaráætlunar og fjármögnunar.