Kappklædd undir sæng í Litháen!
Í vetur hefur viðskipta- og hagfræðibraut VMA tekið þátt í norrænu samstarfsverkefni - Nordplus Enterprising Education – með skólum í Finnlandi, Lettlandi, Litháen, Eistlandi og Svíþjóð. Liður í þessu samstarfi eru fjórar utanlandsferðir nemenda á viðskipta- og hagfræðibraut VMA í vetur til Svíþjóðar, Lettlands, Eistlands og Litháen – þrír nemendur auk eins kennara í hverri ferð.
Fyrsta ferðin var farin til Svíþjóðar í september sl., næsta ferð í nóvember til Lettlands, sú þriðja var í síðasta mánuði til Palanga í Litháen og síðasta ferðin verður í mars nk. til Haapsalu í Eistlandi. Í maí eru síðan væntanlegir til Akureyrar fulltrúar frá hinum samstarfslöndunum.
Utanlandsferðir nemendanna í VMA eru fimm daga ferðir og þar af eru þrír dagar stíf vinna með fulltrúum frá hinum samstarfslöndunum þar sem unnið er að ýmsum verkefnum með sýndarfyrirtæki. Samskipti mili kennaranna og krakkanna fara fram á ensku.
Til þess að bera saman bækur sínar hittust í gær kennarar við viðskipta- og hagfræðibraut VMA, nemendurnir sem fóru til Litháen í síðasta mánuði og þeir þrír nemendur sem eru að undirbúa sig fyrir ferðina til Eistlands í mars. Þau Haukur Hlöðversson, Sigtryggur Gunnarsson og Hólmfríður Lilja Birgisdóttir, sem fóru til Litháens, sögðu ferðina afar lærdómsríka og margt hafi komið á óvart. „Það má kannski segja að það hafi komið okkur á óvart hversu lík samfélög þetta eru á margan hátt. Hins vegar voru aðstæður þarna og aðbúnaður nokkuð frábrugðinn því sem við eigum að venjast hér,“ sögðu þau og vísuðu m.a. til þess að mjög kalt hafi verið í veðri og híbýlin hafi verið ísköld. Á herbergjum á hótelinu hafi vart þurft að hafa matvælin í kæliskáp, nóg hafi verið að láta þau standa á borðinu! Þessu til staðfestingar má hér sjá nokkrar skemmtilegar myndir sem Hilmar Friðjónsson, kennari, tók í ferðinni til Litháens. Og Hilmar var einnig með myndbandatökuvélina á lofti og hér má sjá myndband sem hann setti saman úr Litháenferðinni.
Á meðfylgjandi mynd eru nemendurnir sem fóru til Litháen í janúar og þeir nemendur sem eru nú að undirbúa sig fyrir ferðina til Eistlands í mars. Standandi frá vinstri eru Litháenfararnir Haukur Hlöðversson, Álftanesi, Sigtryggur Gunnarsson, Akureyri og Hólmfríður Lilja Birgisdóttir, Austur-Húnavatnssýslu. Sitjandi frá vinstri eru væntanlegir Eistlandsfarar: Sindri Sverrisson, Akureyri, Hjalti Jósafat Arnarson, Sauðárkróki og Birna Ósk Gunnarsdóttir, Akureyri.