Kennararnir á listnámsbrautinni höfðu mikil áhrif
Það er ávallt gaman að fylgjast með því hvaða slóð útskrifaðir nemendur frá VMA feta í framhaldinu. Úlfur Logason, einn nemendanna sem útskrifuðust af listnámsbraut VMA sl. vor, fór beint áfram í framhaldsnám í myndlist og bar niður í Düsseldorf í Þýskalandi.
Í nýjasta tölublaði Framhaldsskólablaðiðsins er áhugavert viðtal við tvö ungmenni frá Akureyri, Úlf Logason og Karolínu Rós Ólafsdóttur, nema í MA, sem bæði hneigjast til listsköpunar. Yfirskrift greinarinnar er Ung list á Akureyri og þar ræða þau fram og til baka um listina og hvernig hafi verið að alast upp sem ungir listamenn á Akureyri.
Bæði segja þau aðstöðuna góða á Akureyri, miðað við stærð bæjarins, og að ekki sé skortur á fyrirmyndum. Úlfur gefur listnámsbraut VMA afar góða einkunn og segir „kennarana á listnámsbrautinni í VMA hafa haft mikil áhrif og segir að ef ekki væri fyrir verknám á Akureyri væri hann líklegast ekki með stúdentspróf.“
Svo mörg voru þau orð. Sannarlega ánægjulegt að fá góða umsögn frá fyrrverandi nemendum. Gangi Úlfi sem allra best í sínu framhaldsnámi í Þýskalandi!