Kennarasystkinin í VMA
Systkinin Margrét Bergmann Tómasdóttir (Magga) og Kristján Bergmann Tómasson (Mummi) eru bæði kennarar á starfsbraut og sérnámsbraut VMA. Núna á vorönn kenna þau saman áfanga fyrir nemendur á starfsbraut sem þau hafa sett upp og skipulagt og heitir Tómstundafræði.
Í þessum nýja áfanga er lögð áhersla á að kynna fjölþætt tómstundastarf sem er í boði fyrir ungt fólk á Akureyri, innan dyra sem utan, og fara Margrét og Kristján með nemendur sína í vettvangsheimsóknir þar sem þeir sjá með eigin augum og prófa ýmislegt sem er í boði. Sem dæmi má nefna skotíþróttir, rafíþróttir, innanhússklifur, starf björgunarsveita, skátastarf, skautaíþróttir, Amtsbókasafnið og Mótorhjólasafnið verða sótt heim og margt fleira.
„Ég hafði kennt skapandi tómstundir hérna í skólanum en mér fannst ástæða til þess að kynna fyrir nemendum eitthvað af því fjölbreytta tómstundastarfi sem er í boði fyrir ungt fólk hér á Akureyri. Hugmyndin þróaðist áfram og úr varð að við Mummi tókum að okkur að kenna þennan áfanga saman, enda þekkir hann ágætlega til þessara mála og er þar að auki mikill útivistarmaður,“ segir Magga.
„Áður en ég fór að kenna hér við VMA sl. haust hafði ég lengi starfað í tómstundageiranum hjá Akureyrarbæ og þekki því hversu fjölbreytt afþreying er í boði fyrir ungt fólk. Fyrir marga krakka er nærtækast og auðveldast að finna sér afþreyingu í símanum, tölvunni eða sjónvarpinu. Í mínum huga er mikilvægt að kynna þeim ýmislegt annað sem þeir hafa ekki hugmynd um að sé í boði,“ segir Mummi.
„Að taka þátt í tómstundum hefur mikið forvarnagildi og á það leggjum við áherslu og einnig fjöllum við sérstaklega um skaðsemi ávana- og fíkniefna,“ segir Magga.
„Í annarbyrjun gerðum við óformlega könnun meðal nemenda í áfanganum á því hvort þeir væru í einhverju tómstundastarfi og það kom mér á óvart hversu fáir það reyndust vera. En það staðfesti jafnframt hversu sterkur segull síminn, tölvan og sjónvarpið er á krakkana,“ segir Mummi.
Þetta er fjórði veturinn sem Margrét Bergmann Tómasdóttir kennir á starfsbraut og sérnámsbraut VMA. Hún er þroskaþjálfi og með meistarapróf í sérkennslufræðum frá Háskólanum á Akureyri. „Ég hef frá átján ára aldri starfað með fólk með fötlun, ég byrjaði á sínum tíma í sumarafleysinum á Sólborg og vann á mörgum stöðum, sambýlum og víðar.“
Í sextán ár kenndi Margrét í Síðuskóla á Akureyri, var í almennri bekkjarkennslu og fagstjóri sérdeildar fyrir einhverfa nemendur. „Síðan var auglýst kennarastaða hérna í VMA sem heillaði mig. Ég sé ekki eftir því að hafa komið hingað til starfa, kennslan er mjög fjölbreytt og skemmtileg. Þessi vinna hentar kannski ekki fólki sem er fast inn í kassanum, ef svo má segja. En hún hentar mér mjög vel, mér finnst skemmtilegt og gefandi að búa til námsefni og byggja upp áfanga frá grunni eins og við höfum tækifæri til að gera á sérnáms- og starfsbraut,“ segir Magga.
Kristján Bergmann Tómasson hefur mikla og langa reynslu af því að starfa með ungu fólki, m.a. í félagsmiðstöðvum og undanfarin ár hefur hann stýrt starfi Ungmennahússins í Rósenborg. Hann er sálfræðimenntaður og með kennsluréttindi frá Háskólanum á Akureyri. „Ég hef haft mikla ánægju af kennslunni hér í VMA, ég er satt best að segja í skýjunum,“ segir Mummi og upplýsir að hann hafi í mörg ár kennt á námskeiðum á vegum Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar. „Þar hef ég fyrst og fremst kennt á snjóflóðanámskeiðum en einnig námskeiðum í ferðamennsku og skyndihjálp. Þá hef ég með öðrum unnið námsefni í snjóflóðafræðum, þar sem fjallað er um hvað snjóflóð eru, hvernig beri að varast að lenda í þeim, viðbrögð og fleira,“ segir Mummi og bætir við að fyrir nokkrum dögum hafi ný kennslubók í snjóflóðafræðum komið úr prentun, sem hann hafi ásamt fleirum tekið saman.
Systkinin Magga og Mummi hafa sem sagt bæði unnið lengi með ungu fólki og kunna því vel. Mummi segir að langoftast sé lifandi og skemmtilegt að starfa með ungu fólki en vissulega geti það stundum tekið á. „Ég man vel eftir því að þegar ég var sjálfur í grunn- og framhaldsskóla vissi ég ekkert hvað ég nákvæmlega vildi og hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Ríkur skilningur á tilfinningum var heldur ekki til staðar. Það er gott að geta nýtt sér þessa persónulegu reynslu, það auðveldar manni að setja sig í spor nemenda og um leið að tengjast þeim vel. Í mínum huga er mikilvægt að koma fram við krakkana af virðingu og tala ekki niður til þeirra,“ segir Mummi og Magga bætir við: „Mér finnst nemendur skemmtilegir og mér þykir vænt um þá. Almennt er mjög gefandi að geta haft jákvæð áhrif á nemendur með því að kynna þeim áhugaverða, uppbyggjandi og skemmtilega hluti.“