Kennsla hefst á vorönn í dag
Í dag, fimmtudaginn 5. janúar, kl. 10:00 hefst kennsla á vorönn í VMA samkvæmt stundaskrá. Klukkan 09:00 verður móttaka nýrra nemenda í stofu M-01.
Á vorönninni stunda sem næst 850 nemendur nám í dagskóla í VMA. Bóknámið verður með hefðbundnu sniði en þær viðbætur sem hæst bera í verknáminu frá haustönn eru þær að nú fer af stað nýr námshópur í pípulögnum og í fyrsta skipti verður boðið upp á kvöldnám í rafvirkjun. Kvöldskólinn í húsasmíði, sem hófst á síðasta ári, hefur gefið mjög góða raun og útskrifast kvöldskólanemarnir í vor. Nú verður fetuð svipuð braut í rafvirkjuninni.
Nemendur í þriðja bekk í matreiðslu ljúka námi sínu núna á vorönn og það sama gera nemendur í framreiðslu, sem hófu nám sitt í 2. bekk á haustönn. Þeir halda einnig áfram núna á vorönninni og taka jafnframt 3. bekkinn. Þetta þýðir að stefnan er tekin á að bæði nemendur í matreiðslu og framreiðslu í VMA fari í sveinspróf í vor - og verður þetta þá í fyrsta skipti sem framreiðslunemar (þjónar) ljúka öllu sínu námi frá VMA.