Kennsla hafin á vorönn
Á vorönn eru um 1230 nemendur skráðir í nám í skólann, sem er svipaður fjöldi nemenda og hóf nám á vorönn 2012. Flestar verknámsbrautir við skólann eru fullsetnar. Tekið skal fram að enn er hægt að skrá sig í fjarnám á vorönn, opið er fyrir umsóknir til 15. janúar nk. Þá skal þess og getið að lotunám matartækna og kjötiðnaðarmanna hefst núna í janúar.
Af nýjungum á þessari vorönn nefnir Sigríður Huld Jónsdóttir, aðstoðarskólameistari, áfanga í sviðslistum, sem nemendur fá kynningu á ýmsu er tengist leiklist og leikhúsi, ekki aðeins út frá leikaranum, heldur einnig sviðsmynd, lýsingu, skipulagningu og ýmsu öðru baksviðs. Þetta verður sem sagt alhliða kynning á leikhúsi og því sem tilheyrir að leika og setja upp leiksýningar. Sigríður Huld segir að í tengslum við þennan áfanga verði kannaður sá möguleiki að koma á fót sérstöku sviðslistakjörsviði á listnámsbraut skólans í samvinnu við Leikfélag Akureyrar og fleiri aðila.
Af öðrum nýjungum á vorönn má nefna áfanga í kynjafræði, sem Snorri Björnsson kennir. Áfanginn reyndist mjög vinsæll hjá nemendum og komust færri að en vildu.