Kennsla hefst í dag - um 230 nýnemar
í dag, þriðjudaginn 20. ágúst, kl. 09:55 hefst kennsla samkvæmt stundaskrá í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Í gær komu nýnemar (f. 2003) í skólann og fengu stundatöflur sínar afhentar og umsjónarkennarar áttu fundi með þeim. Einnig var haldinn fundur með nýjum innrituðum nemendum og endurinnrituðum nemendum.
Skráðir nemendur í dagskóla á haustönn eru 1017 talsins, þar af eru 229 nýnemar (f. 2003), 64 nýir innritaðir nemendur og 116 endurinnritaðir nemendur.
Benedikt Barðason skólameistari sagði í ávarpi sínu í Gryfjunni í gær, þar sem hann bauð nýnema velkomna í skólann, að þeir væru töluvert fleiri en búast hefði mátt við, afar ánægjulegt væri að svo margir nemendur hefðu valið nám í VMA, það undirstrikaði vinsældir skólans. Hann upplýsti að í vetur væru nemendur innritaðir á 35 mismunandi námsbrautir, sem sýndi vel fjölbreytni í námsframboði skólans.
Til viðbótar við nemendur í dagskóla verða sem fyrr fjarnemar í hinum ýmsu áföngum og námsleiðum. Ekki liggur fyrir með fjölda þeirra, umsóknarfrestur um fjarnám er til 1. september nk.