Kennsla hefst í dag - rúmlega þúsund nemendur í dagskóla
Í dag hefst kennsla í VMA samkvæmt stundaskrá. Eins og síðustu þrjár annir tekur skólastarfið, í það minnsta til að byrja með, mið af þeim sóttvarnatakmörkunum sem í gildi eru.
Samkvæmt upplýsingum Sigurðar Hlyns Sigurðssonar áfangastjóra, eru 1013 dagskólanemendur skráðir til náms nú í upphafi haustannar. Skipting þessarar tölu er á þann veg að 646 nemendur, sem stunduðu nám á síðustu önn flytjast nú á milli anna, nýnemarnir eru 218 og 149 nemendur eru endurinnritaðir.
Eins og oft áður eru verknámsdeildir skólans fullbókaðar og biðlisti á margar þeirra.
Eins og kom fram í frétt hér á heimasíðunni undir lok vorannar er nú í fyrsta skipti boðið upp á kvöldnám í húsasmíði. Fimmtán nemendur verða í kvöldnáminu, sem hefst nk. mánudag, þar af 12 í fullu námi.