Fara í efni

Kennslan og tónlistin eiga ýmislegt sameiginlegt

Kennarinn og tónlistarmaðurinn Ari Baldursson við norðurinngang VMA.
Kennarinn og tónlistarmaðurinn Ari Baldursson við norðurinngang VMA.

Tónlistin hefur fylgt Ara Baldurssyni, kennara í rafiðngreinum í VMA, alla tíð. Hann er með tónlistina í genunum því hann er í þeirri miklu tónlistarætt, Mýrarættinni í Bárðardal. Á æskuárunum bjó hann á Grýtubakka I í Grýtubakkahreppi og faðir hans, Baldur Jónsson, var organisti á Grenivík. Eitt leiddi af öðru og ungur að árum fór Ari að semja lög – og það hefur hann gert alla tíð. Hann segir að tónlistin og kennslan eigi ýmislegt sameiginlegt, allt gangi þetta út á skapa, fara nýjar leiðir og skilja eitthvað eftir sig.

Mistök á Grenivík

„Tónlistarnámi hef ég reyndar ekki verið svo mikið í. Þó minnist ég þess að líklega þegar ég var tólf ára gamall fór ég í tvær vikur til Akureyrar til Áskels Jónssonar, föðurbróður míns, tónskálds, organista og kórstjóra, og hann reyndi að fá mig til þess að spila á píanó. Í unglingadeildinni á Stórutjörnum sótti ég síðan píanó- og gítartíma. Helgi R. Einarsson kenndi mér á gítar og þá keypti ég mér kassagítar fyrir fermingarpeningana. Á Stórutjörnum fékk ég smá innsýn í tónfræðina en fyrst og fremst hef ég sjálfur aflað mér þekkingar í tónlistinni. Þetta kemur mikið með gúggli og grúski.
Á Grenivík spilaði ég á gítar í unglingahljómsveitinni Mistök með bróður mínum og tveimur öðrum.
Og fyrir tvítugt fór ég að spila fyrir alvöru í hljómsveitum og meira að segja náði ég, líklega átján ára gamall, að spila aðeins með Örvari Kristjánssyni.
Upp úr 1980 fór ég í nám í rafeindavirkjun í Iðnskólanum í Reykjavík og þegar ég kom aftur til baka norður kynntist ég Steingrími Stefánssyni, sem þá var með eigin hljómsveit, og fór að spila með honum. Raunar var ég til að byrja með söngvari hljómsveitarinnar en fór fljótlega að spila á hljómborð. Í þessari hljómsveit voru m.a. Ingvar Grétarsson á gítar og Halli Gulli trommuleikari, sem þá var ungur að árum, var líka þarna innanbúðar. Með þessum félögum mínum stofnuðum við hljómsveitina París á fyrri hluta níunda áratugarins og þar spilaði ég á hljómborð og söng ásamt Júlíusi Guðmundssyni. Þessi hljómsveit var lengi í ballbransanum en eins og gengur í þessum bransa er ekkert eilíft og næsta skref var það að ásamt Finni Finnssyni bassaleikara, Alberti Ragnarssyni og Jóni Berg mági mínum, sem spilaði á trommur, settum við á stofn hljómsveitina Helenu fögru. Þá hljómsveit starfræktum við í mörg ár, spiluðum mikið á sveitaböllum, á Hótel KEA, í Sjallanum og samkomum hér og þar.
Á þessum tíma starfaði ég í mínu fagi, sem ég hafði lært í Iðnskólanum í Reykjavík. Fyrst vann ég hjá fyrirtækinu Skrifstofuval og síðan opnaði ég mína eigin radíóvinnustofu. Loks stofnuðum við Jón Berg saman fyrirtækið Rafland þar sem við seldum heimilistæki og vorum einnig með viðgerðarverkstæði fyrir raftæki,“ rifjar Ari upp.

Kántrí í Danmörku

Árið 1990 lá leið Ara og fjölskyldu til Danmerkur þar sem hann lærði forritun og hugbúnaðargerð og vann síðan um tíma hjá fataframleiðandanum Brandtex. Þar starfaði danskur tónlistarmaður sem bauð Ara að koma á hljómsveitaræfingar og áður en hann vissi af var hann farinn að spila vítt og breitt um Danmörku. Nú var Ari orðinn gítarleikari og söngvari í danskri kántríhljómsveit! Raunar þurfti lítið að ýta á hann að spila kántríið því strax á unglingsárum hreifst Ari af kántríhljómum sem mátti heyra í lögum sem nokkur af vinsælustu böndum unglingsáranna, t.d. Brimkló og Ðe lónlí blú bojs, hljóðrituðu í bílförmum.

Jón forseti

Árið 1997 lá leiðin aftur heim til Íslands og þá var Ari farinn að prófa sig áfram með að útbúa undirspil í tölvu, með það í huga að nýta það til stuðnings þegar hann kæmi einn fram með gítarinn. Fjölskyldan bjó þá á höfuðborgarsvæðinu og Ari fór að reyna fyrir sér sem trúbadúr – með stuðningi undirspils í tölvu. Til að byrja með á Café Catalína í Kópavogi. Síðan fór hann að vinna með öðrum tónlistarmanni, Þresti Harðarsyni, og spiluðu þeir lengi saman í tveggja manna bandi – sem bar nafnið Jón forseta.

Fljótlega upp úr aldamótum flutti Ari norður aftur og var förinni heitið til Dalvíkur þar sem fjölskyldan bjó í gamla læknisbústaðnum, Árgerði, skammt sunnan bæjarins, og leigðu einnig út herbergi, enda húsið stórt. Á þessum tíma starfaði Ari um tíma í byggingarvinnu á vetrum en var í gistiþjónustunni á sumrin. Síðar gerðist hann um nokkurra ára skeið þjónustumaður fyrir Marel, var að þjónusta fyrirtæki sem voru með búnað frá Marel. Einnig starfaði hann víða um heim á vegum fyrirtækisins.

Tónlistarútgáfan

Frá unglingsárum hefur Ari samið tónlist. „Ég bara hreinlega veit ekki hvernig lögin mín verða til. En maður er alltaf eitthvað að gutla á gítarinn og smám saman verða til laglínur sem ég vinn áfram með og spinn síðan eitthvað í kringum. Og hugmyndir að laglínunum geta orðið til hér og þar, jafnvel hér í kennslunni í VMA. Mér hugnast einfaldar laglínur og viðlög og þannig byggi ég mín lög upp. Ég vil helst semja grípandi sönglög. Mér finnst einfaldleikinn bestur, eitthvað sem grípur og gengur upp. Ég hef á síðari árum gert sjálfur textana við lögin mín og það er allur gangur á því hvort lagið eða textinn kemur fyrst. Textagerðin – og raunar lagasmíðar einnig - er fyrst og fremst þjálfun og auðvitað býr maður að því að hafa sungið ógrynni af textum í gegnum tíðina. Allt nýtist þetta vel þegar á hólminn er komið,“ segir Ari.

STEF hefur skráð 30 lög eftir Ara en vitaskuld er fullt af lögum sem hann hefur samið en ekki gefið út. Lög Ara hafa komið út á þremur hljómdiskum. Hann átti þrjú lög á sjö laga diski sem framangreindur dúett, Jón forseti, gaf út og síðan hefur hann sjálfur gefið út tvo diska. Sá fyrri heitir Helst af öllu og var gefinn út árið 2006 og sá síðari, sem heitir Gull og grænir skógar, kom út í síðasta mánuði.

Og Ari hefur líka gert kórlög, m.a. tvö jólalög fyrir Karlakór Dalvíkur, og nú æfir Í fínu formi - kór eldri borgara á Akureyri lag eftir Ara, sem hann sjálfur útsetti fyrir fjórradda blandaðan kór.

Kántrítónlistin er í öndvegi á Gull og grænum skógum og athyglisvert er að við gerð disksins naut Ari m.a. liðsinnis tónlistarmanna í Bandaríkjunum. Allt gerðist þetta í gegnum veraldarvefinn. Á bandarískri vefsíðu komst Ari í samband við tónlistarmenn þar vestra sem sérhæfa sig í hljómheimi kántrítónlistarinnar. Sem er raunar ekki skrítið því Bandaríkin eru vitaskuld Mekka kántrísins. Bandarískir tónlistarmenn voru fengnir til þess að spila laglínur Ara og sendu honum síðan yfir netið hljóðskrár með hverju hljóðfæri og Ari púslaði þessu síðan saman í tölvunni sinni. Smám saman varð hljóðheimurinn til og Ari söng textana ofan á laglínurnar. Punkturinn yfir i-ið var síðan hljóðblöndunin sem Ari fékk kántrísöngvara í Bandaríkjunum til þess að sjá um. Áður höfðu raunar tveir merkir tónlistarmenn á Akureyri, Billi (Brynleifur Hallsson) gítarleikari og Leibbi (Þorleifur Jóhannsson) trommuleikari spilað inn á hluta laganna á diskinum og þær upptökur notar Ari. Leibbi var sem kunnugt er kennari um árabil í húsasmíði í VMA. Bæði Billi og Leibbi, sem m.a. spiluðu í gamla daga með Eydal-bræðrunum, Ingimari og Finni, féllu frá langt um aldur fram.

Eins og með hljóðritun hljóðfæraleiksins á diskinum kom netið að góðum notum fyrir Ara til að komast í samband við fyrirtæki utan landssteinanna sem fjölfalda diska og sjá um allan frágang.
Ari gefur diskinn út sjálfur og hefur séð um undirbúning hans og framleiðslu frá a til ö. Diskinn er hægt að kaupa af Ara og einnig er unnt að heyra lögin hans á streymisveitum, t.d. Spotify og Youtube.

Kennslan í VMA

Ari hóf kennslu við rafiðnbraut VMA haustið 2014 og eru hann og Haukur Eiríksson aðalkennarar nemenda í rafeindavirkjun. Raunar rifjar Ari upp að hann hafi kennt einn vetur snemma á níunda áratugnum, eftir að hann kom norður aftur að loknu námi í rafeindavirkjun í Reykjavík. Þá hafi hann kennt ásamt Þórhalli Ragnarssyni sem kenndi um árabil við rafiðnbraut VMA. Það megi því í raun segja að hann hafi snúið aftur í kennsluna að þrjátíu árum liðnum.

„Mér finnst mjög gaman að kenna vegna þess að kennslan býður upp á að gera hlutina á skemmtilegan og líflegan hátt. Og það skaðar auðvitað ekki að í kennslunni er fengist við hluti sem maður hefur virkilegan áhuga á. Þó svo að í sumum tilvikum séu nemendur mjög vel að sér þá má aldrei gleyma því að grunnurinn verður að vera til staðar og okkar kennaranna er að kenna hann.
Tónlistin er mitt áhugamál, í henni felst sköpunarútrás og hún gefur mér mjög mikið. Kannski má segja að kennslan og tónlistin sé að sumu leyti sami hluturinn. Í bæði kennslunni og tónlistinni er verið að skapa og búa hluti til,“ segir Ari Baldursson.