Kerrurnar ruku út
Eins og greint var frá hér á heimasíðunni á dögunum smíðuðu brautskráningarnemar í stál- og blikksmíði tvær kerrur núna á vorönn, á lokaönninni í náminu. Fram kom í frétt hér á heimasíðunni að kerrurnar væru til sölu.
Strax fyrir hádegi sama dag og fréttin birtist 26. apríl sl. keypti fyrirtækið Norðurtorg, sem rekur samnefnda verslunarmiðstöð í gamla Sjafnarhúsinu, báðar kerrurnar. Þær voru afhentar starfsmönnum Norðurtorgs á dögunum og þá voru þessar myndir teknar.
Það þarf ekki að hafa um það mörg orð að kerrurnar eru völundarsmíð, til smíðinnar er vandað í hvívetna og munu kerrurnar án efa nýtast þeim Norðurtorgsmönnum vel. Slík smíði er mikilvægt verkefni fyrir verðandi stál- og blikksmíði. Svo mikið er víst að mikil þörf er á fagmenntuðu fólki í þessum greinum um allt land og vinnumarkaðurinn hreinlega æpir á það. En því miður hafa allt of fáir, allt of lengi, ekki sótt í þetta nám. Úr því verður að bæta og þar þurfa allir að koma að borðinu, atvinnulífið jafnt sem yfirvöld menntamála í landinu.