Fara í efni

Kjötiðnaðarmeistari í kennsluréttindanámi

Rúnar Ingi (til hægri) og Theódór Sölvi.
Rúnar Ingi (til hægri) og Theódór Sölvi.
Að undanförnu hefur Rúnar Ingi Guðjónsson, gæðafulltrúi hjá Kjarnafæði, verið í æfingakennslu í þriðja bekk matreiðslunámsins í VMA. Kennslan er liður í lotunámi sem hann leggur stund á við Háskóla Íslands til hliðar við sín daglegu störf hjá Kjarnafæði til þess að afla sér fullgildra kennsluréttinda.
 
Rúnar Ingi er lærður kjötiðnaðarmaður. Hann lauk því námi í MK árið 2008 og tók nokkrum árum síðar meistaraskólann og nám til iðnstúdentsprófs. Á árunum 2004 til 2014 starfaði hann í sínu fagi hjá Norðlenska á Akueyri og var hluti af þeim starfstíma áskilinn samningstími. Á árunum 2015 til 2018 var Rúnar Ingi kjötiðnaðarmaður og um tíma gæðastjóri hjá Stjörnugrís en frá 2018 hefur hann verið gæðafulltrúi hjá Kjarnafæði. 
 
Rúnar Ingi segir að starf gæðafulltrúa sé í senn fjölbreytt og skemmtilegt en því geti einnig fylgt töluverð streita enda þurfi að passa vel upp á að allar þær vörur sem fari frá fyrirtækinu standist ítrustu kröfur um gæði og heilnæmi og að öllum stöðlum sé fylgt út í ystu æsar. 
 
Síðastliðið haust hóf Rúnar Ingi ásamt átta öðrum meisturum í sínum faggreinum hér norðan heiða nám til kennsluréttinda við HÍ. Um er að ræða lotunám og fer það að stærstum hluta fram í gegnum netið. Nemendur sitja í kennslustofu í VMA og geta í gegnum fjarfundabúnað fylgst með og tekið þátt í umræðum við samnemendur sína og kennara sunnan heiða. Í hópi þeirra níu nemenda sem nú afla sér fullra kennsluréttinda eru nokkrir kennarar í iðngreinum við VMA og Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað.
 
Æfingakennslan sem Rúnar Ingi þarf að taka í náminu er í þrjú skipti. Í fyrstu lotunni fylgdist hann með kennslu kokkanemanna í þriðja bekk í VMA, í annarri lotunni aðstoðaði hann Theodór Sölva Haraldsson við kennsluna og í næstu viku sér hann síðan um kennsluna. Rúnar Ingi segist hafa mikla ánægju af kennsluréttindanáminu, sem hann gerir ráð fyrir að ljúka fyrir næstu jól, og sömuleiðis finnst honum afar gefandi að kenna. Í framtíðinni vonast hann til þess að fá tækifæri til þess að miðla þekkingu sinni til verðandi kjötiðnaðarmanna.