Fara í efni

Komin aftur í grunndeildina

Íris Arngrímsdóttir segir grunndeildarnemum til í málmsmíðinni.
Íris Arngrímsdóttir segir grunndeildarnemum til í málmsmíðinni.

Fyrir nákvæmlega áratug var Íris Arngrímsdóttir nemandi í grunndeild málmiðnaðar í VMA og lærði grunnatriðin af lærifeðrum sínum. Áratug síðar kennir Íris verðandi málmiðnaðarmönnum, bifvélavirkjum eða vélfræðingum/vélstjórum fyrstu skrefin á þessari braut.

Að lokinni grunndeild fór Íris í vélstjórn og útskrifaðist vorið 2018. Árið eftir lauk hún sveinsprófi í vélvirkjun. Og fyrir rúmu ári síðan hóf Íris kennslu í vélstjórn í VMA og var umsjónarkennari eins nýnemahóps. Stökk sem sagt út í djúpu laugina frá fyrsta degi en naut þess strax að kenna. Í vetur kennir hún m.a. grunndeildarnemum í verklegum tímum á móti Stefáni Finnbogasyni, sem á sínum tíma var lærifaðir hennar í grunndeild málmiðnaðar. Eða eins og skáldið segir: Þannig týnist tíminn!

Þegar litið var inn í grunndeild málmiðnaðar á dögunum var Íris að segja nemendum sínum til í málmsmíði. Allir eru þeir að smíða það sama, fyrsta smíðastykkið sem þeir takast á við í skólanum, hamar sem komið er haganlega fyrir í statífi. Þetta er nákvæmnisvinna, eins og vera ber. Hér er ekki spurt um sentímetrana eða millimetrana, heldur brot úr millimetrunum. Glöggt er smiðsaugað. Ganga þarf úr skugga um að smíðin á grunnstykkjunum sé hundrað prósent, annars verður eftirleikurinn erfiður í meira lagi.