Komnir á rétta hillu
Það hefur verið mikill skortur af fagmenntuðu stál- og blikksmiðum og því er ánægjulegt til þess að vita að góður hópur er núna í þessu námi í VMA, bæði nemendur að ljúka námi í maí nk. og einnig nemendur sem stefna á að ljúka námi á vorönn 2020. Það virðist ljóst að þessara nemenda bíða góð störf á vinnumarkaði.
Tveir þeirra nemenda sem stunda nú nám í stálsmíði og stefna að því að ljúka námi vorið 2020 eru þeir Bjarki Búi Ómarsson, sem býr í Hólakoti í Eyjafjarðarsveit, og Hilmar Poulsen frá Akureyri. Þeir segjast vera öldungar sem hafi loks fundið sína réttu hillu, Bjarki Búi fagnar 27 ára afmælinu í dag og Hilmar er 32 ára gamall. Báðir eru þeir fjölskyldumenn og eru sammála um að það sé töluvert átak að setjast á skólabekk fyrir „gamlingja“ eins og þá, til hliðar við vinnu og fjölskyldulíf. En vel þess virði og mikilvægt sé að landa starfsréttindum í stál- og blikksmíðinni.
„Ég hef lengi haft mikinn áhuga á ýmsu er viðkemur vélum. Ég fór reyndar á sínum tíma á íþróttabraut hér í VMA, var þá sextán ára gamall, og lauk þremur önnum í því námi. Ég var síðan í Slippnum í fimm ár og fékk áhuga á að mennta mig frekar á þessu sviði. Horfði til þess að fara í vélstjórnina en þar sem mér fannst svo gaman að sjóða varð úr að ég ákvað að skella mér í þetta og sé ekki eftir því,“ segir Bjarki Búi.
Hilmar Poulsen brosir út í annað þegar hann rifjar upp skólagöngu sína. Fyrir sextán árum var hann í VMA á almennri braut. Segist þá hafa verið mjög óráðinn í því á allan hátt hvað hann langaði til þess að læra. Fór síðan á matvælabraut tveimur árum síðar og horfði þá til þess að læra bakaraiðn. Það breyttist snarlega og fyrr en varði var Hilmar farinn að vinna sem þjónn, fyrst á Hótel Nordica í Reykjavík og síðan á Strikinu á Akureyri. Hann vann því næst á lyftara hjá Vífilfelli á Akureyri um tíma, fór í meiraprófið og vann sem rútubílstjóri í tvö ár og fékk síðan vinnu hjá Slippnum í nóvember 2015 og hefur unnið þar síðan. Reynslan af vinnunni í Slippnum og námskeið sem Hilmar tók í TIG-suðu hjá SÍMEY segir hann að hafi endanlega leitt hann inn á þá braut að fara í nám í stálsmíði í VMA og ná sér þannig í full starfsréttindi. Þetta sé hillan sem hann hafi svo lengi verið að leita að. Nú þegar er Hilmar langt kominn með starfssamninginn í stálsmíði í Slippnum, býst við að ljúka honum næsta haust, áður en hann klárar námstímann í VMA. „Ég er ákveðinn í því að taka líka námið í blikksmíði og afla mér starfsréttinda á því sviði. Til viðbótar við stálsmíðina þarf ekki að bæta svo miklu við til þess að hafa full réttindi í báðum greinum og því finnst mér mikið til vinnandi,“ segir Hilmar og Bjarki Búi tekur undir að hann hyggist sömuleiðis fara sömu leið, að ljúka bæði stálsmíðinni og blikksmíðinni.
Þeir segjast báðir vera mjög sáttir með námið. Kennslan sé góð og kennararnir eins og hluti af hópnum, sem í þeirra huga er mikilvægt. Þeir eru sammála um að viðhorf þeirra til námsins sé allt annað núna en þegar þeir stigu sín fyrstu skref í framhaldsskóla, strax að loknum grunnskóla. Þroskinn efli menn og yfirvegunin sé meiri. Hins vegar segjast þeir ekki geta mælt með því að fara þessa leið, þ.e.a.s. að ljúka ekki starfsréttindum fyrr en á þrítugs- og fertugsaldri. Það sé vissulega nokkuð erfitt til hliðar við vinnu, fjölskyldulíf og fjárhagslegar skuldbindingar. Það skynsamlega sé fyrir ungt fólk að ljúka sínu grunnnámi og eftir atvikum framhaldsnámi sem fyrst eftir grunnskóla og fara síðan út á vinnumarkaðinn.
Þegar litið var inn á málmiðnaðarbrautina voru Bjarki Búi, Hilmar og félagar þeirra í stál- og blikksmíðinni í æfingatíma í logsuðu hjá Herði Óskarssyni. Allt er þetta eftir kúnstarinnar reglum gert og í þessu eins og mörgu öðru er það æfingin sem skapar meistarann að lokum. Hér kallast á nákvæmni í vinnubrögðum, þolinmæði og listfengi. Allt þarf þetta að vera til staðar til þess að tryggja hámarks gæði.