Kynheilbrigði frá ýmsum hliðum
Kynheilbrigði spannar vítt svið og tekur m.a. til líkamsstarfsemi, kynþroska, kynlífs, kynvitundar, kláms, sjálfsmyndar, tilfinninga og samskipta. Þetta eru nokkur af þeim lykilhugtökum sem kennararnir Kristjana Pálsdóttir og Valgerður Dögg Oddudóttir Jónsdóttir hafa á þessari önn unnið með nemendum í Kynheilbrigðisfræði, sem er valáfangi á öðru þrepi.
Þetta er í þriðja skipti sem þessi áfangi er kenndur en árið 2019 fengu Kristjana og Valgerður styrk til þess að móta hann. Áfanginn var ákveðið svar við ákalli framhaldsskólanema um aukna kennslu í kynfræði og um samskipti kynjanna, sem birtist með skýrum hætti í vinnu starfshóps sem Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, skipaði árið 2020 um aukna kynfræðslu í skólum og ofbeldisforvarnir á grunn- og framhaldsskólastigi.
Vegna kóvidfaraldursins var áfanginn kenndur í fyrsta skipti í vefkennslustundum en þetta er í annað skipti sem hann er kenndur í dagskóla.
Kristjana og Valgerður hafa vonir um að þetta námsefni verði skylda fyrir alla nemendur því sannarlega sé mikil þörf á því. Áfanginn er hins vegar enn sem komið er val og að þessu sinni eru á þriðja tug nemenda í honum.
Þær segja að miklar og góðar umræður hafi skapast í kennslustundum og fjölmörg og fjölbreytt verkefni hafi verið unnin. Á veggjum skólans og í einum glugga hans má sjá ýmislegt sem nemendur í áfanganum hafa unnið. Og nemendur tóku sig til og þrívíddarprentuðu í Fab Lab áhugaverða útgáfu af getnaðarlim sem gerði víðreist í VMA eins og hér má sjá.
Kynbundið ofbeldi hefur verið ofarlega á baugi í þjóðfélagsumræðunni og hafði nemendafélagið Þórduna frumkvæði að því að fá fyrirlesarana Þorstein V. Einarsson og Sólborgu Guðbrandsdóttur í VMA fyrr í þessari viku. Í gær var á dagskrá örfyrirlestur Silju Rúnar Reynisdóttur frá lögreglunni en vegna veikinda var honum aflýst. Hins vegar er í dag, 1. desember, fyrirlestur fulltrúa Bjarmahlíðar og barnaverndar í M-01kl. 12:15. Allir eru hvattir til að mæta.
Þá er þess að geta að í dag, 1. desember, verður Ljósaganga gegn öllu ofbeldi gengin frá Zontahúsinu við Aðalstræti 54 og að Bjarmahlíð-þolendamiðstöð. Lagt verður af stað í gönguna, sem er á vegum Zontaklúbbsins á Akureyri og Soroptimista, kl. 16:30.
Kristjana og Valgerður segja að eitt af því sem þær hafi lagt áherslu á í áfanganum um kynheilbrigðisfræði sé jákvæði samskipti fólks, sem einn af mikilvægum þáttum í að skapa góð sambönd. Einnig hversu mikilvægt það sé að tala samam, hlusta af virðingu á sjónarmið annarra, tjá skoðanir sínar og stuðla að auknu sjálfstæði hvers og eins.