Kastljós á kynheilbrigði
Kynheilbrigði frá ýmsum sjónarhornum er þema þessarar viku hjá nemendum í kynheilbrigðisáfanga hjá Valgerði Dögg Oddudóttur Jónsdóttur.
Á ganginum við stofuna M-01 má sjá hin ýmsu veggspjöld með áhugaverðum upplýsingum um kynlíf og ýmislegt því tengt og í matsalnum er að finna skemmtilegt spil þar sem má sjá ýmsar staðreyndir um kynlíf. Um allan skóla hafa nemendur í áfanganum komið fyrir smokkum og sleipiefni og með því að hafa augun opin á göngunum má finna vísbendingar sem leiðir fólk á réttar slóðir. Einnig eru vísbendingar á instagramsíðu nemendafélagsins Þórdunu.
Í dag, miðvikudag, verður myndabás í M-01 þar sem nemendur geta tekið af sér myndir í áhugaverðu umhverfi. Þar verða einnig stórar myndir af kynfærum þar sem verkefnið er að setja rétt hugtök á líkamshluta þeirra.
Á morgun, fimmtudag, verður síðan Kahoot spurningaleikur í löngu frímínútunum í Gryfjunni sem tengist kynheilbrigði, veglegir vinningar verða í boði fyrir þá heppnu.