Kynna grunnskólanemum leyndardóma snjallperutækninnar
Auk þess að kenna verðandi rafvirkjum og rafeindavirkjum alla mögulega og ómögulega hluti í þeim fræðum eru tveir kennarar í rafiðndeildinni, Björn Hreinsson og Guðmundur Geirsson, með áfanga núna á vorönn fyrir nemendur efstu bekkja grunnskóla á Akureyri. Um er að ræða valáfanga sem á þriðja tug nemenda úr grunnskólunum sækja – þeim er skipt í tvo hópa og kennir Björn öðrum hópnum en Guðmundur hinum.
Nemendur fá að glíma við hina ýmsu hluti sem tengjast raffræðunum, t.d. að lóða, útbúa netsnúru og fjöltengi og í vikunni fengu þeir að glíma við ögrandi og skemmtilegt verkefni; að tengja snjallperulampa við app.
Allir nemendur fengu í hendur lampa, sem þeir fengu að taka með sér heim, og fólst verkefnið í því að setja kló á tengisnúru lampans, koma perustæðinu á sinn stað og síðan að setja snjallperuna í lampann. Loks þurftu nemendur að setja upp WIS app fyrir snjallperur í símana sína og þar með var hægt að kveikja og slökkva á lampanum með símanum og kalla fram alla mögulega liti á lampaperurnar.
Möguleikarnir aukast dag frá degi með hinum ýmsu snjalllausnum í gegnum símana og þar er rafmagnið engin undantekning. Með nettengingu er unnt að stýra í gegnum snjallsíma hita í húsum, lýsingu, opnun og lokun hurða og svo mætti lengi áfram telja. Möguleikarnir eru óendanlegir á tímum tækniþróunar. Snjallstýringin á lampalýsingunni er eitt örlítið dæmi um þessa ört vaxandi tækni. Húsasmiðjan lagði þessu verkefni lið með því að veita góðan afslátt af snjallperunum og vill rafiðndeild VMA þakka fyrirtækinu kærlega fyrir það.