Kynna sér Stórval og Sólon Íslandus
Sölvi Helgason – Sólon Íslandus og Stefán Jónsson frá Möðrudal - Stórval. Tveir myndlistarmenn frá 19. og 20. öld. Báðir sérstakir menn sem fóru ekki troðnar slóðir. Þessir myndlistarmenn voru viðfangsefni nemenda í áfanganum Íslensk myndlist hjá Hallgrími Ingólfssyni þar sem hérlend myndlistarsaga frá öndverðu til okkar daga er viðfangsefnið.
Verkefni dagsins hjá myndlistarnemunum var að kynna sér þessa tvo merku myndlistarmenn og bera þá eilítið saman. Sumir nemendurnir könnuðust við þá báða en aðrir ekki. Nemendur leituðu upplýsinga á veraldarvefnum og veltu vöngum út frá fyrirliggjandi upplýsingum um þá Sölva og Stefán
Sölvi Helgason var 19. aldar maður, fæddur í Skagafirði. Hann gerðist flakkari ungur að árum og komst oft í kast við lögin. Fyrir það þurfti hann meðal annars að dúsa í fangelsi í Danmörku í þrjú ár. En listhneigður var hann, bæði skrifaði hann og málaði og hafa varðveist ríflega hundrað myndir eftir hann. Davíð Stefánsson, skáld frá Fagraskógi skrifaði skáldsöguna Sólon Íslandus sem fjallar um ævi Sölva.
Stefán Jónsson frá Möðrudal á Fjöllum, sem varð þekktur sem listmálarinn Stórval, fæddist í Möðrudal árið 1908. Hann lést árið 1994. Stefán var þekktur fyrir barnslegan og naívískan stíl. Uppáhaldsviðfangsefni hans var fjallið Herðubreið sem sést vel úr fæðingarsveit Stórvals á góðum degi. Ekki er ofmælt að Stefán hafi verið kynlegur kvistir en jafnframt merkasti fulltrúa íslenskrar alþýðumenningar á síðustu öld.
Hér eru nokkrar myndir af nemendum í Íslenskri myndlist að velta vöngum yfir Sölva og Stefáni.