Kynningardagur og opið hús 10. október nk.
Kynningardagur VMA verður haldinn fimmtudaginn 10. október. Þann dag verður öllum 10. bekkingum á Akureyri og í nágrannasveitarfélögum boðið að heimsækja skólann og kynna sér námsframboð og daglegt líf í skólanum. IÐAN fræðslusetur verður á staðnum að kynna starfsemi sína. Seinnipart dags verður opið hús í skólanum og eru allir velkomnir að koma í skólann og kynna sér starfsemina.
Tekið verður á móti nemendum úr 10. bekk grunnskóla á Akureyri og nágrannasveitarfélögum frá kl. 9:00 til 13:00. Heimsókn hvers skóla/hóps tekur um 1 ½ – 2 klst. Nemendur fá fyrst stutta kynningu á skólanum og námsframboði hans og svo hafa þeir frjálsan tíma í ca. klst til að skoða skólann og það sem þeir hafa áhuga á. Miðrými skólans verður opnað og þar setja brautir og deildir upp bása og kynna sitt nám.
Nemendur og starfsfólk skólans verður sýnilegt í merktum bolum, allir boðnir og búnir að aðstoða nemendur og veita upplýsingar. Grunnskólanemendur fá Vegabréf VMA þar sem verður kort af skólanum og einnig verður stimpilleikur þar sem nemendur fá stimpla í þeim deildum sem þeir heimsækja og geta svo skilað í kassa sem síðan verður dregið úr.
Nemendafélag skólans verður með aðsetur í Gryfjunni. Þar verða klúbbakynningar og ýmsar aðrar uppákomur.
Hér má sjá sérstakan kynningarvef VMA.
Þessi vika verður jafnframt „Vika símenntunar í iðnaði“ og af því tilefni verður IÐAN fræðslusetur á staðnum og kynnir ýmislegt spennandi sem nemendur geta prófað tengt iðn- og tæknigreinum eins og t.d. ljósakerfi í bíl þar sem nemendur mega koma við allt og prófa, suðuherma, greenscreen þar sem nemendur geta látið taka mynd af sér með hárkollur og hatta og margt fleira verður í boði.
Seinnipart dags, að loknum grunnskólakynningunum, verður opið hús í VMA frá kl. 15:00 til 18:00 þar sem allir eru boðnir velkomnir í skólann að kynna sér það fjölbreytta starf sem þar fer fram.