Kynningarfundur í dag um tæknifræðinám á háskólastigi
Kynning á fyrirhuguðu námi í tæknifræði á háskólastigi á Akureyri verður í M01 í VMA í dag, föstudaginn 25. apríl, kl. 13.00. Fulltrúar frá Keili verða á staðnum og kynna námið og fyrirkomulag þess.
Þann 27. mars sl, var undirritaður samningur VMA, Keilis í Reykjanesbæ og Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar um að hefja tækninám á háskólastigi á Akureyri frá og með næsta skólaári.
Samningurinn felur í sér að bjóða upp á nám í tæknifræði til BSc-gráðu í nafni Keilis þar sem hluti þess fer fram á Akureyri. Einkum er horft til fyrsta og seinni hluta þriðja árs en annað árið og fyrri hluti þriðja árs mun fara fram í höfuðstöðvum Keilis á Keflavíkurflugvelli.
Um er að ræða þriggja ára nám til BSc-gráðu í tæknifræði og til þess að fá löggildingu sem tæknifræðingur bætist hálft ár við. Lokaverkefni nemenda í náminu er gert ráð fyrir að þeir vinni í samstarfi við fyrirtæki á Norðurlandi sem og þriggja vikna verkefni nemenda eftir því sem við verður komið.
Námið er ætlað hvort sem er stúdentum af t.d. náttúrufræðibraut, stúdentum að loknu starfsnámi eða fullnuma vélstjórum. Nemendum með sveinspróf í iðngreinum verður gert kleift að búa sig undir námið í gegnum háskólabrú Keilis hjá SÍMEY eða í VMA.
Við það er miðað að hefja námið í haust, náist nægilegur fjöldi nemenda. Hægt er að sækja um námið á heimasíðu Keilis, www.keilir.net
Hér er vissulega um ákveðin tímamót að ræða í tæknimenntun á Akureyri og því er full ástæða til þess að hvetja alla þá sem sjá þarna möguleika á auknu tækninámi að koma á kynningarfundinn í VMA í dag og fá allar upplýsingar um námið beint í æð.