Íslenska lambakjötið rauði þráðurinn í markaðsverkefni
Íslenska lambakjötið var viðfangsefni nemenda í markaðsfræðiáfanga í VMA undir handleiðslu Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur. Nemendurnir kynntu í gær afrakstur vinnu sinnar á Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit, sem var ekki tilviljun því verkefnið unnu þeir í samvinnu við Lamb Inn.
Lamb Inn er ferðaþjónustufyrirtæki sem býður m.a. upp á gistingu og veitingaþjónustu. Fyrirtækið hefur ávallt lagt mikla áherslu á hráefni úr héraði og þá fyrst og fremst íslenska lambakjötið, eins og raunar nafn fyrirtækisins gefur til kynna. Á heimasíðu fyrirtækisins segir m.a. um veitingastaðinn: „Við sérhæfum okkur í lambakjöti. Okkar einkennisréttur er hefðbundið íslenskt lambalæri, sérvalið og verkað á okkar hátt, eldað lengur við hægari hita og borið fram með heimalöguðu rauðkáli, grænum baunum, brúnuðum kartöflum, sósu og heimagerðri rabbarbarasultu, rétt eins og hjá ömmu.“
Á þessu ári veitti Markaðráð kindakjöts Lamb Inn viðurkenningu – einn tíu veitingastaða sem fékk slíka viðurkenningu – fyrir að skara fram úr við að kynna íslenskt lambakjöt fyrir erlendum ferðamönnum.
Eigendur Lamb Inn hafa óbilandi trú á lambakjötinu og vilja því sækja frekar fram á þessu sviði með því mögulega að framleiða nýjar vörur úr lambakjötinu fyrir neytendamarkað – sem seldar yrðu í verslunum og einnig sem skyndibiti í veitingavögnum. Liður í þessum hugrenningum var samstarf eigenda Lamb Inn og nemenda í umræddum markaðsfræðiáfanga í VMA.
Sem fyrr segir kynntu nemendur afrakstur vinnu sinnar í gær. Um er að ræða það sem kallað hefur verið á ensku „Pulled Lamb“ eða „rifið lamb“ – ekki ósvipað og „Pulled Pork“ sem margir kannast við.
Eins og vera ber veltu nemendur upp ýmsum leiðum í markaðssetningu á bæði neytendavörunni og skyndibitaréttinum sem hugmyndin er að yrði seldur úr veitingavagni. Meðal annars horfðu nemendur til þess hvernig væri unnt að nálgast yngri neytendur en vitað er að neysla yngra fólks á lambakjöti hefur dregist verulega saman á undanförnum árum.
Nemendur skiptust í tvo hópa og kynntu niðurstöður sínar af annars vegar markaðssetningu á neytendavöru og hins vegar á sölu lambakjötsskyndiréttarins úr söluvagninum.
Auk nemendanna og Sunnu Hlínar fylgdust staðarhaldararnir á Öngulsstöðum, Karl Jónsson og Jóhannes Geir Sigurgeirsson, af miklum áhuga með kynningunum. Þeir buðu síðan til matarveislu þar sem auðvitað var á borðum ljúffengt „Pulled Lamb“.
Hvað út úr þessari vinnu síðan kemur verður tíminn að leiða í ljós. En teningnum hefur í það minnsta verið kastað og ekki kæmi á óvart að áður en langt um liður heyrðist af nýrri vörulínu fyrir neytendur þar sem eyfirska lambið verði í aðalhlutverki.