Fara í efni

Fengu kennslu í laufabrauðs- og kleinugerð

Kampakátir nemendur með verkefni dagsins.
Kampakátir nemendur með verkefni dagsins.
Í áfanganum ÍSAN er innflytjendum/útlendingum kennd íslenska. Áfanginn á þessari önn er í höndum Svanhildar Daníelsdóttur og Karenar Malmquist og eru þrettán nemendur. Sumir nemendurnir eru komnir lengra en aðrir, eins og gengur, og sumum gengur betur en öðrum að læra íslenskuna, sem óneitanlega er ansi snúið tungumál að tileinka sér.
 
Nú sitja þrettán nemendur áfangann. Stundum eru allir nemendur saman í tímum en stundum er þeim skipt í hópa. Annars vegar er um að ræða níu nýbúa - þar af þrjá frá Póllandi, fjóra frá Sýrlandi, einn frá Úkraínu og einn frá Taílandi - og hins vegar fjóra skiptinema - tveir frá Ítalíu, einn frá Frakklandi og einn frá Kína. Allir komu skiptinemarnir til landsins sl. sumar og hafa verið í VMA frá annarbyrjun en einn þeirra, annar Ítalinn, er nú á förum en hinir þrír verða á Íslandi og við nám í VMA til vors.
 
Þar sem íslenskan er erfitt tungumál fyrir útlendinga að læra leitast þær Svanhildur og Karen við að hafa kennsluna fjölbreytta og lifandi. Þessa síðustu kennsludaga annarinnar ber fjölmargt á góma, m.a. jólin og jólaundirbúningur. Liður í því var að kynna íslenska jólasiði fyrir nemendunum, m.a. laufabrauðs- og kleinubakstur. Því bauð Svanhildur nemendunum í áfanganum heim til sín í gær og fengu þeir að spreyta sig á að snúa kleinum og skera laufabrauðskökur. Að sjálfsögðu var síðan boðið upp á steiktar kleinur og laufabrauð og því skolað niður með rjúkandi kakói. Var ekki annað að sjá en að nemendurnir kynnu vel að meta.
 
Hér eru fleiri myndir sem Svanhildur og Karen tóku í laufabrauðsgerðinni í gær.