Fara í efni

Kynntu starf kjötiðnaðarmanna

Oddur Árnason (t.v.) og Halldór Jökull Ragnarsson.
Oddur Árnason (t.v.) og Halldór Jökull Ragnarsson.
Góðir gestir komu í VMA í gær frá Reykjavík og kynntu nemendum í grunnnámi matvæla- og ferðagreina nám og starf kjötiðnaðarmanna. Þetta voru formaður og varaformaður Meistarafélags kjötiðnaðarmanna, Halldór Jökull Ragnarsson og Oddur Árnason. Nemendum í grunnnáminu var skipt í tvo hópa og héldu þeir Halldór og Oddur því tvo fyrirlestra. Þessar myndir voru teknar á fyrri fyrirlestrinum og hér er helmingur grunnnemanna.
 
Kjötiðn er ein þeirra fimm matvælanámsbrauta sem standa nemendum opnar að loknu því tveggja anna grunnnámi sem nemendur geta tekið í VMA. Hinar eru matartækni, matreiðsla, framreiðsla og bakaraiðn.
 
Nám í kjötiðn er annars vegar á vinnustað - samtals 126 vikur á námssamningi - og 54 vikna skólatími - grunnnám og síðan fagnám sem nemendum stendur til boða að taka í Menntaskólanum í Kópavogi.
 
Fram kom hjá bæði Halldóri Jökli og Oddi að kjötiðnaðarmenn starfi í hinum ýmsu störfum. Að sjálfsögðu er vettvangur margra þeirra kjötvinnslur vítt og breitt um landið - og má þannig segja að kjötiðnaðarmennirnir séu millistykki milli bóndans og matreiðslumannsins. Faglærðir kjötiðnaðarmenn vinna fjölbreytt verk í kjötvinnslunum - úrbeina, framleiða kjötvörurnar, koma að sölumálunum o.fl. En þeir starfa á mun fleiri stöðum en í kjötvinnslunum og bar þeim Halldóri og Oddi saman um að kjötiðnaðarmenn væru eftirsóttir starfskraftar í t.d. sölu og innkaup, á veitingahúsum, í kjötverslunum o.fl. Þeir nefndu að kjötiðnaðarmenn hafi t.d. unnið hjá lyfjafyrirtækinu Actavis, framleiðslu- og þróunarfyrirtækinu Marel og á sjúkrahúsum landsins.
 
Halldór Jökull á langan feril að baki og hefur unnið hjá mörgum fyrirtækjum en hefur undanfarin fjórtán ár starfað hjá Innnes heildverslun, nú síðast sem gæðastjóri. Auk þess að læra kjötiðn hefur hann bætt við sig matvælaiðnfræði í Danmörku og diplómanámi í markaðs- og viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík.
 
Oddur hefur starfað sem kjötiðnaðarmaður hjá Sláturfélagi Suðurlands í rösklega þrjá áratugi. Hann kemur þar m.a. að ýmsum vöruþróunarmálum og nefnir í því sambandi að hann fái aldrei leið á pylsum, ætla megi að hann borði að jafnaði ein og hálfa pylsu á dag, árið um kring. Það þýðir um 550 pylsur á ári. Geri aðrir betur!