Fara í efni

Lá beint við að fara í grunndeild málmiðnaðar

Gerður Björg Harðardóttir.
Gerður Björg Harðardóttir.
"Ég hef alltaf haft áhuga á vélum og hef í gegnum tíðina fylgst með pabba, sem er vélvirki, þegar hann hefur verið að gera við bílana og vélarnar heima. Það lá því beint við að byrja á því að fara í grunndeildina hér," segir Gerður Björg Harðardóttir frá Einarsstöðum í Reykjadal sem stundar nám í grunndeild málmiðnaðar í VMA. Hún kom í VMA úr Lundarskóla, þar sem hún tók 10 bekk grunnskóla, en áður hafði hún verið í Litlulaugaskóla í Reykjadal og  Hafralækjarskóla í Aðaldal.
 
Það er til marks um áhuga Gerðar á vélum að sl. sumar starfaði hún á bílaverkstæðinu Car-X á Akureyri, aðstoðaði þar bílamálarann við undirbúning að því að sprauta bíla. Hún kemur til með að starfa aftur á Car-X í sumar.
 
Auk áhuga á vélum segist Gerður Björg hafa mikla ánægju af motocrossi og eigi motocrosshjól á móti föður sínum. "Ég hef ekki keppt í motocrossi en fer stundum á hjólinu eftir gamla veginum upp á Fljótsheiði," segir hún.
 
"Ég held að það hafi engum komið á óvart að ég valdi að fara þessa leið í námi. Ég hef alltaf haft ánægju af því að smíða og vinna í höndunum. Mér líkar vel við námið hér í VMA og stefni á að fara áfram í vélstjórn næsta vetur og sjá hvernig mér líkar í henni. Mögulega held ég áfram þar eða fer í bifvélavirkjunina, það kemur bara í ljós," segir Reykdælingurinn Gerður Björg Harðardóttir.