Landslag úr Þistilfirði og abstrakt
Auðvitað var það töluverð breyting fyrir Kötlu Böðvarsdóttur að koma úr tæplega 40 nemenda Reykjahlíðarskóla í Mývatnssveit og hefja nám haustið 2021 í VMA, um eitt þúsund nemenda skóla. En hún orðar það svo að hún hafi alveg verið til í þetta, eftirvæntingin og spennan hafi verið kvíðanum yfirsterkari.
Leið Kötlu lá á listnáms- og hönnunarbraut VMA, enda hefur hún frá barnæsku haft ánægju af því að teikna. Og hún er ánægð með námið. Nemendur hafi traust kennaranna til þess að skapa og útfæra hlutina. Ég hef lært helling, segir Katla, og bætir við að ekki sé verra að auk grunnsins sem hún fái í myndlistinni taki hún stúdentspróf. Þeim áfanga hyggst Katla ljúka í desember á þessu ári.
Þessa dagana eru tvö lítil akrílverk Kötlu, sem hún vann í málunaráfanga sl. haust hjá Björgu Eiríksdóttur, upp á vegg mót austurinngangi skólans. Hvorugt verkanna hefur nafn, annað þeirra er abstrakt en hitt er landslag, málað eftir ljósmynd sem var tekin austur í Þistilfirði þar sem Katla er stundum í fjölskyldusumarbústað.
Í þau ár sem Katla hefur verið í VMA hefur hún búið á heimavist VMA og MA – og kann því vel. Um hverja helgi skýst hún austur í Baldursheim í Mývatnssveit. Síðustu sumur hefur Katla starfað í húsamálun í Mývatnssveit og víðar en á komandi sumri gerir hún ráð fyrir að starfa í Kröflu. Og auðvitað þarf að leggja hönd á plóg við eitt og annað í bústörfunum í Baldursheimi. Katla segir því ekki að leyna að í sér blundi bóndi og vel geti svo farið að hún horfi til náms í búvísindum í framtíðinni. Það komi bara í ljós í fyllingu tímans.
En hvernig hefur tíminn í VMA verið? Góður, segir Katla og nefnir sérstaklega hversu gott henni finnist það fyrirkomulag að hafa ekki lokapróf. Þó henni hafi almennt gengið ágætlega í prófum telji hún árangursríkara að hafa verkefnavinnu og símat í áföngum, slíkt sé til þess fallið að skilja meira eftir sig.