Leikfélag VMA sýnir Grís í vetur
Leikfélag VMA mun í vetur setja upp hinn þekkta söngleik Grís (Grease), sem byggður er á samnefndri kvikmynd. Leikstjóri sýningarinnar verður Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri VMA og þrautreyndur leikstjóri, Jóhanna G. Birnudóttir (Jokka) verður aðstoðarleikstjóri og Kristján Edelstein, tónlistarmaður á Akureyri, verður tónlistar- og hljómsveitarstjóri sýningarinnar. Dönsum og hreyfingum stýrir Eva Reykjalín. Prufur fyrir sýninguna verða 7. október og verða þær auglýstar betur þegar nær dregur. Æfingar hefjast síðar í október og frumsýning er áætluð 11. febrúar 2021.
Pétur Guðjónsson segist sjá fyrir sér viðamikla og metnaðarfulla sýningu. Hann segir að stærsta ástæðan fyrir því að þetta verk varð fyrir valinu sé sú að tími sé til kominn til þess að setja það upp. Leikfélag VMA hafi sett það upp fyrir mörgum árum og það hafi einnig verið sett á svið í Íþróttahöllinni fyrir margt löngu. Tími sé til kominn að Akureyringar og nærsveitamenn fái tækifæri til þess að sjá það aftur. Verkið sé skemmtilegt og sígilt og höfði til fólks á öllum aldri.
Pétur leikstýrði fyrir tveimur árum þessum sígilda söngleik í uppfærslu nemenda Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki og hún fékk frábærar viðtökur og mikla aðsókn. Hann vonast til þess að það sama verði upp á teningnum í vetur í uppfærslu Leikfélags VMA.
Undanfarin ár hefur Leikfélag VMA sýnt á þremur stöðum; Bjart með köflum var sýnt 2016 í Freyvangi, Litla hryllingsbúðin árið 2017 í Samkomuhúsinu og Ávaxtakarfan (2018), Bugsy Malone (2019) og Tröll (2020) í Menningarhúsinu Hofi. Grís verður hins vegar sett upp í Gryfjunni í VMA og því má segja að um mikil tímamót sé að ræða hjá Leikfélagi VMA. Pétur segir að verkefnið sé ekki eingöngu að setja upp stóra og metnaðarfulla sýningu þar sem hvergi verður sparað til þess að útkoman verði sem best, einnig verði byggt leikhús í Gryfjunni. Henni verði með öðrum orðum breytt í leikhús þegar þar að kemur. Um skeið verður Gryfjunafnið lagt til hliðar og í stað þess tekið upp nafnið Vasaleikhúsið – Grís verði sem sagt sýndur í Vasaleikhúsinu í VMA.
Grís er fyrst og fremst þekktur fyrir tónlistina, hvert mannsbarn þekkir frægustu lögin úr kvikmyndinni/söngleiknum. Í uppfærslu VMA verður lifandi tónlistarflutningur hljómsveitar undir stjórn Kristjáns Edelstein.
Eins og vera ber þarf að mörgu að huga við uppfærsluna á Grís – sviðsmynd, ljósahönnun, búningum, tæknistjórn o.fl. Pétur segir að í þessum efnum búi Leikfélag VMA að því að hafa mikið hæfileikafólk innan veggja skólans – bæði nemendur og starfsmenn – sem mun leggja lóð sín á vogarskálarnar við uppsetninguna, þeirra á meðal kennararnir Arna Valsdóttir og Harpa Birgisdóttir.
En hvað með covid-19 faraldurinn, setur hann ekki strik í reikninginn? Því svarar Pétur á þann veg að eins og staðan sé núna sé grænt ljós á starf leikhúsa, innan allra þeirra reglna sem nú eru í gildi. Verði hins vegar breyting á til hins verra verði staðan endurmetin og gripið til B-plans. Sem fyrr segir er áætlunin sú að hefja æfingar í október og að æft verði út nóvember. Síðan verði hlé á æfingum í desember og fyrir jólin verði flutt atriði úr verkinu á Glerártorgi, eins og Leikfélag VMA hefur gert undanfarin ár. Aftur verði farið af stað með æfingar í janúar og verkið frumsýnt, sem fyrr segir, í febrúar 2021.