Leiklist í þriðjudagsfyrirlestri
Í dag, þriðjudaginn 4. október, kl. 17-17.40 verður Jenný Lára Arnórsdóttir leikstjóri með þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni List mennskunnar.
Jenný lýsir efni fyrirlestursins svo: „Leiklist hefur oft verið kölluð list augnabliksins, en hún er einnig list mennskunnar. Í heiminum í dag virðist samkennd vera á undanhaldi og því er mikilvægt að skoða samhengi leiklistar í kennslu út frá því sjónarhorni. Leiklist er sú listgrein sem snýst hvað mest um mennskuna, samkenndina og að reyna að skilja sálarlíf manneskjunnar. Því er leiklistarkennsla orðin enn mikilvægari en áður í þessum heimi einangrunar. Að leika aðra manneskju þýðir að setja sig í spor annarra, að prófa að lifa lífi annarra og að hugsa hugsanir annarra án þess að dæma. Þannig verður leiklist spegill samtímans.“
Jenný Lára Arnórsdóttir útskrifaðist sem leikara og leikstjóri frá KADA í London árið 2012. Hún starfar sem leikstjóri, höfundur og framleiðandi og er auk þess skólastjóri Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar. Hún er jafnframt í leikhópnum Umskiptingum, sem er eini starfandi atvinnuleikhópurinn á Norðurlandi og hefur hlotið tilnefningar til Grímuverðlaunanna sem Sproti ársins og einnig fyrir barnaleikritið Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist. Þeirra nýjasta verk er einleikurinn Líf sem var sýndur hjá Leikfélagi Akureyrar nú í haust.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistarfélagsins og MA. Aðgangur er ókeypis.