Lét loks verða af því að fara í smiðinn
Aðaldælingurinn Böðvar Jónsson hefur farið eilitið óhefðbundna leið í gegnum skólakerfið. Tuttugu og sex ára gamall er hann farinn að læra húsasmíði – nám sem hugur hans stóð í raun til fyrir allmörgum árum en hann lét ekki verða að því að drífa sig í það fyrr en nú.
Eftir grunnskóla lá leið Böðvars í Menntaskólann á Akureyri og lau hann stúdentsprófi vorið 2008. Eftir menntaskóla fór hann á sjóinn og heillaðist svo af ýmsu er tengdist sjómennsku og sjávarútvegi að hann ákvað að innritast í sjávarútvegsfræði í Háskólanum á Akureyri. Af ýmsum ástæðum, m.a. vegna þess að hann hafi ekki haft nægilega góðan raungreinagrunn, segist Böðvar hafa ákveðið að láta staðar numið í HA eftir tæplega tveggja ára nám og snúa sér að öðru. Alltaf blundaði í honum að smíða, það hafði hann gert oft á sumrin og þótti áhugavert. Og smíðagenin voru og eru til staðar því faðir hans, Jón Gauti Böðvarsson, er smiður og starfar sem slíkur í Aðaldal.
„Ég vann síðan alfarið í smíðunum hjá fyrirtækinu Norðurpólnum á Laugum í Reykjadal frá júní 2012 til sl. hausts þegar ég ákvað að skella mér í byggingadeildina hérna í VMA og læra húsasmíðina. Það sem ekki síst ýtti á eftir mér var að Norðurpóllinn bauðst til þess að taka mig á samning í húsasmíði. Þar sem ég hef stúdentspróf frá MA stend ég að sjálfsögðu vel að vígi í þessu námi því ég er búinn að taka stóran hluta af bóklega náminu og því er það fyrst og fremst verklegi hlutinn sem ég þarf að einbeita mér að. Ég kem til með að vinna eins mikið og ég mögulega get með náminu,“ segir Böðvar sem býr ásamt sambýliskonu sinni við Hafralækjarskóla í Aðaldal. „Ég sé ekki eftir því að hafa skellt mér í smíðanámið, þetta er mjög skemmtilegt og gott nám,“ segir Böðvar.
Þegar litið var inn í smíðastofu byggingadeildar voru fyrsta árs nemar að vinna að einu af nokkrum smíðaverkefnum annarinnar sem fellst í því að læra að geirnegla saman fjalir samkvæmt teikningu og ganga frá geirneglingunni á eins snyrtilegan hátt og mögulegt er. Þorleifur Jóhannsson kennari segir að út af fyrir sig sé geirnegling ekki algeng nú til dags en hún sé hins vegar prýðileg til þess að þjálfa nemendur í vönduðum og nákvæmum vinnubrögðum. Í þessum fyrsta verklega áfanga sé ekki síst lögð áhersla á að vinna hlutina í höndunum, vélar séu vissulega notaðar í miklum mæli í smíðum en handverkið verið engu að síður að vera til staðar hjá öllum góðum smiðum.
Hér eru nokkrar myndir sem voru teknar í kennslustund í byggingadeildinni.