Lífið á heimavistinni
Sem næst 330 íbúar eru á Heimavist MA og VMA og þar af eru um 170 nemendur frá MA og um 160 nemendur frá VMA. Eins og venja er til voru öll heimavistarrýmin setin í upphafi haustannar en af ýmum ástæðum losnuðu nokkur rými á fyrstu vikum skólaársins eins og gjarnan gerist á þessum fyrstu dögum en heita má að búið sé að fylla aftur í þau rými sem losnuðu.
Þóra Ragnheiður Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Heimavistar MA og VMA segir að jafnan sé stærstur hluti heimavistarbúa í neðri bekkjum beggja framhaldsskóla og svo sé einnig nú. „Ólögráða nemendur – þ.e. undir átján ára aldri – eru um 70% af heimavistarbúum og þetta hlutfall hefur verið svipað undanfarin ár. Fyrir nokkrum árum var viðmiðunarreglum um úthlutun hér breytt í þá veru að ólögráða nemendur hefðu ákveðinn forgang að heimavistarýmum. En auðvitað eru hér líka eldri nemendur og það er mjög gott að hafa góða blöndu af yngri og eldri nemendum. Þess eru mörg dæmi að nemendur séu hér á heimavistinni allan skólaferilinn,“ segir Þóra Ragnheiður.
Hún segir að haft sé að leiðarljósi að heimavistarbúar upplifi dvölina sem „Heimili – að heiman“ eins og nokkur kostur sé og það gangi mjög vel. Andinn sé almennt mjög góður og áhersla lögð á að nemendum líði vel. Hannesína Scheving hjúkrunarfræðingur, sem jafnframt er kennari við sjúkraliðabraut VMA, er með viðtalstíma tvisvar í viku fyrir heimavistarbúa. Þóra Ragnheiður segir þessa þjónustu afar mikilvæga, bæði fyrir nemendur og forráðamenn þeirra. Hjá Lundi sem á og rekur heimavistina starfa níu starfsmenn, þar með talið vaktafólk um helgar og næturverðir.
Lögð er áhersla á gott samstarf við forráðamenn íbúa heimavistarinnar og það sama á við um námsráðgjafa í báðum framhaldsskólunum.
Mötuneyti og þvottahús er sem kunnugt er einnig rekið í tengslum við heimavistina. Liður í búsetu íbúa á heimavistinni er fullt fæði að lágmarki fimm daga í viku. Einnig geta nemendur beggja framhaldsskólanna keypt sér áskriftarkort fyrir hádegismat. Ekki er óalgengt að á fimmta hundað manns séu í hádegismat.
Vert er að geta þess að á heimasíðu Heimavistar MA og VMA og facebooksíðu hennar eru margvíslegar upplýsingar, þar á meðal vikulegur matseðill mötuneytisins.
Almennt láta nemendur sem búa á heimavistinni vel af dvölinni þar. Dæmi um það er Margrét Brá Jónasdóttir sem var í spjalli hér á heimasíðunni á dögunum.