Lífshlaupið 2021 hefst á morgun
Á morgun, miðvikudaginn 3. febrúar, hefst Lífshlaupið 2021, hið árlega heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Í Lífshlaupinu eru landsmenn hvattir til daglegrar hreyfingar og auka hana eins og kostur er, þ.e. í frítíma, vinnu, skóla og við val á ferðamáta. Í ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu er börnum og unglingum ráðlagt að hreyfa sig að lágmarki 60 mínútur á dag og fullorðnum í það minnsta 30 mínútur á dag.
Liður í Lífshlaupinu er vinnustaðakeppni (þrjár vikur í febrúar), grunnskólakeppni (tvær vikur í febrúar), framhaldsskólakeppni (tvær vikur í febrúar) og einstaklingskeppni (dagleg hreyfing allt árið). Þáttakendur geta skráð hreyfingu sína á heimasíðu Lífshlaupsins 2021.
Sögu Lífshlaupsins má rekja aftur til 2005 þegar þáverandi menntamálaráðherra skipaði starfshóp til þess að móta íþróttastefnu Íslands og hvetja til aukinnar hreyfingar. Í kjölfarið varð heilsu- og hvatningarverkefnið Lífshlaupið til.
Í fróðlegum bæklingi frá Embætti landlæknis er ítarlega fjallað um hreyfingu frá ýmsum hliðum. Þar segir m.a.: Regluleg hreyfing hefur fjölþættan ávinning fyrir heilsuna eins og vísindarannsóknir staðfesta. Þeir sem hreyfa sig reglulega minnka meðal annars líkurnar á að fá kransæðasjúkdóma, heilablóðfall, sykursýki 2, sumar tegundir krabbameina, stoðkerfisvandamál og geðröskun. Umfram allt eykur regluleg hreyfing líkurnar á að fólk lifi lengur og við betri lífsgæði en annars.