Lífshlaupið hefst á morgun
Lífshlaupið 2022 hefst á morgun, miðvikudaginn 2. febrúar. Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Markmiðið með verkefninu er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta. Þar segir að börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega og fullorðnir ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega.
Jafnframt því að vera skemmtileg hvatning til fólks til hollrar hreyfingar er Lífshlaupið 2022 keppni milli vinnustaða og framhaldsskóla. Vinnustaðakeppnin verður frá og með morgundeginum, 2. febrúar, til 22. febrúar og framhaldsskólakeppnin hefst einnig í fyrramálið og lýkur 15. febrúar.
Nú er bara um að gera að skrá sig. Skráning er á www.lifshlaupid.is/innskraning. Skráningarferlið er einfalt og þægilegt en leiðbeiningar má finna hér og svo hér á ensku. Liðsstjórar þurfa að samþykkja sína liðsmenn inn í liðið sitt. Þetta er gert vegna persónuverndarsjónarmiða.
Vert er að minna á Lífshlaups-appið þar sem mun einfaldara er að skrá alla hreyfinguna sína þegar viðkomandi hefur skráð sig í lið. Hér má finna upplýsingar um Lífshlaups-appið.