Lífshlaupið hefst í dag
Í dag hefst hið árlega Lífshlaup – sem er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa. Í Lífshlaupinu eru landsmenn hvattir til að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er, þ.e. í frítíma, heimilisverkum, vinnu, skóla og við val á ferðamáta. Reglur keppninnar eru í samræmi við ráðleggingar Landlæknisembættisins um hreyfingu. Börnum og unglingum er ráðlagt að hreyfa sig a.m.k. 60 mínútur á dag og fullorðnum í minnst 30 mínútur á dag.
Lífshlaupið samanstendur af grunnskólakeppni fyrir 15 ára og yngri og framhaldsskólakeppni fyrir 16 ára og eldri 1.-14. febrúar nk., vinnustaðakeppni frá 1. til 21. febrúar og einstaklingskeppni þar sem allir geta tekið þátt og skráð niður sína daglegu hreyfingu allt árið.
Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur nú verið skráður inn á síðuna "lifshlaupid.is" og þar getur fólk skráð sína eigin æfingadagbók en með því móti er auðvelt að halda utan um og skrá svart á hvítu sína eigin hreyfingu. Hér er skráning í Lífshlaupið.