Gaman að búa til góðan mat
„Mér líst mjög vel á námið. Þetta er þéttur og góður hópur,“ segir Baldvin Helgi Gunnarsson, 27 ára Sauðkrækingur sem stundar nú nám í þriðja bekk í matreiðslu á matvælabraut VMA. Eins og fram hefur komið er þetta í fyrsta skipti sem þriðji og síðasti áfangi náms í matreiðslu er kenndur í VMA.
Baldvin Helgi tók grunnnámið í VMA veturinn 2015-2016 samhliða því að starfa á Múlabergi á Akureyri. Áður hafði hann sumarlangt starfað í eldhúsinu á sumarhótelinu á Laugum í Reykjadal og í eitt ár á 1860 Bistro í Hofi á Akureyri. Þá hafði Baldvin gert það upp við sig að matreiðsluna vildi hann leggja fyrir sig. Fyrir ári, á haustönn 2017, fór hann suður og tók annan bekkinn í Menntaskólanum í Kópavogi og áður en ljóst var að þriðji bekkurinn yrði kenndur í VMA stefndi í að hann þyrfti aftur að fara suður. En af því varð sem sagt ekki og segir Baldvin það hafa verið sérlega ánægjulegt þegar ákveðið var að kenna þriðja bekkinn hér norðan heiða. Í senn geti verið erfitt og kostnaðarsamt að flytja suður tímabundið til þess að sækja námið og því skipti gríðarlega miklu máli að geta tekið námið í VMA.
Baldvin Helgi býr á Akureyri og hefur gert undanfarin ár. Hann segist vera að ljúka samningstímanum á Múlabergi sem geri honum mögulegt að taka þriðja bekkinn núna. Fyrst og fremst einbeiti hann sér að náminu en taki vaktir á Múlabergi ef á þurfi að halda. „Þetta er yfirgripsmikið nám sem krefst þess að maður einbeiti sér að því,“ segir Baldvin en tvo daga í viku eru verklegir tímar í eldhúsinu í VMA og aðra tvo eru bóklegir tímar. Sæbjörg Rut Guðmundsdóttir sér um verklegu kennsluna en bóklegi hlutinn er í höndum Ara Hallgrímssonar og Eddu Bjarkar Kristinsdóttur, kennara við matvælabraut VMA. Náminu lýkur í lok þessarar annar með sveinsprófi.
Á sínum tíma fór Baldvin í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki í bæði húsasmíði og á tungumálabraut en þegar hann síðan prófaði kokkamennskuna fann hann að þar var hann kominn á rétta hillu. „Það er einfaldlega gaman að búa til góða mat,“ segir Baldvin og nefnir að samheldni og góður vinnuandi sé mikilvægur til þess að góður árangur náist. Á veitingastað skipti góður undirbúningur og gott skipulag öllu máli til þess að hlutirnir gangi vel fyrir sig. Séu þessir hlutir í lagi þurfi ekki að óttast að streitan nái yfirhöndinni. „Það græðir enginn á því að stressast upp í þessari vinnu, það skilar engum árangri,“ segir Baldvin og upplýsir að hann hafi mest dálæti á fiski. Hann hafi alist upp við það á Króknum að borða fisk oft í viku og hann hafi mikla ánægju af því að elda hann.