Listnám með stærðfræðiívafi
Margrét Brá Jónasdóttir er nemandi á fjórða ári á listnámsbraut VMA. Hún er Norður-Þingeyingur, frá Garði í Þistilfirði. Þessa dagana hangir uppi akrílmynd eftir hana í húsakynnum VMA, á veggnum gegnt austurinngangi skólans.
„Þetta er fjórða árið mitt í VMA. Leiðin á listnámsbrautina var tiltölulega bein, ég gerði töluvert af því að teikna þegar ég var barn,“ rifjar Margrét upp. Tveir eldri bræður hennar voru einnig í VMA á sínum tíma, annar lærði bifvélavirkjun og hinn húsgagnasmíði.
Um akrílverkið sitt segir Margrét Brá að það sé á ákveðinn hátt tengt henni sjálfri því það beri hennar nafn. Þarna megi greina „hafsauga“ sem sé vísan til nafns hennar; Margrét = sjávarperla og Brá = auga. „Í rauninni vann ég þetta út frá skissu sem ég gerði þegar ég var tólf ára. Mér finnst gaman og í raun nauðsynlegt að hafa ákveðnar pælingar að baki verkunum sem ég vinn, það er alltaf gaman að koma hugmyndum sem maður er með í kollinum á blað,“ segir Margrét.
Auk listarinnar hefur Margrét Brá alltaf haft mikinn áhuga á stærðfræði en hann varð þó ekki listáhuganum yfirsterkari. „Ég bæti við mig stærðfræðiáföngum hérna í VMA og tek þá í stað þriðja tungumálsins. Tungumál hafa aldrei heillað mig og því var góður kostur að geta tekið meiri stærðfræði í staðinn,“ segir Margrét.
Sem fyrr segir er Margrét úr Þistilfirðinum, hún býr á heimavistinni og kann því vel. Undanfarin tvö sumur hefur hún starfað á Fræðasetri um forystufé á Svalbarði í Þistilfirði en auk sýningarinnar um forystuféð er rekið kaffihús á sumrin og einnig eru þar listaverk til sýnis, þar á meðal útilistaverk sem Margrét Brá gerði.